Hópmeðferðir og námskeið á döfinni
Náðu tökum á áhyggjum – Hópmeðferð við áhyggjuvanda
Valkyrjur- valdefling fyrir konur sem hafa verið í ofbeldissambandi
Fjögurra daga meðferð við OCD og ælufælni
Náðu tökum á félagskvíða
Styrkur og sátt – sjálfstyrking
Almennt um hópmeðferðir
Við Kvíðameðferðarstöðina eru ýmsar hópmeðferðir og námskeið í boði. Hóparnir byggja á hugrænni atferlismeðferð, veitt er fræðsla um kvíða í fyrstu tímunum og aðferðir kenndar, og síðar æfðar, til að ná tökum á vandanum. Oftast fylgir lesefni hópunum og tillögur að heimaverkefnum. Fólk þarf ekki að tjá sig meira en það kýs í tímum en góð ástundun stuðlar að auknum meðferðarárangri.
Hópmeðferð hefur ýmsa kosti í för með sér. Hún ber álíka góðan árangur og einstaklingsmeðferð og er hlutfallslega ódýrari. Ríkur þáttur meðferðar er að veita fræðslu um kvíðaviðbragðið og er sérlega þægilegt að koma slíkri fræðslu við í hóp. Hópmeðferð oft skemmtileg og auðveldara að koma ýmsum æfingum við í hóp en í einstaklingsviðtölum. Þátttakendur læra hver af öðrum og styðja hver annan í þessari vinnu.
Þegar um félagskvíða er að ræða hefur það eitt að mæta í hópinn unnið gegn félagskvíðanum, þar sem kvíðinn fer smám saman minnkandi eftir því sem fólk er lengur í hópnum. Fólk á hins vegar oft erfitt með að hafa sig í að mæta í fyrstu skiptin, eins og eðlilegt er, en mæti það í fyrstu skiptin þrátt fyrir kvíðann er það komið yfir erfiðasta hjallann og mun kvíðinn eftir það smám saman fara minnkandi.
Hópmeðferðin stendur að jafnaði yfir í 6 til 10 vikur eftir eðli vandans. Hópurinn hittist oftast vikulega í tvo tíma í senn, og er kaffipása um miðbik tímans. Yfirleitt veita sálfræðingar fræðsluerindi um einhverja þætti kvíða og kvíðastjórnunar í fyrri tímanum og eru æfingar í þeim seinni. Æfingarnar eru mismunandi og fara eftir því hvers eðlis kvíðinn er. Reynt er að hafa æfingarnar hæfilega krefjandi, þær eiga helst hvorki að vera of léttar né of þungar. Þær mega alls ekki vera erfiðari en svo að fólk treysti sér til að taka þátt. Hins vegar má búast við eilítið auknum kvíða í byrjun, þegar fólk fer að takast á við kvíðann með öðrum hætti en áður. Haldi fólk æfingum ótrautt áfram má búast við að kvíðinn fari hratt minnkandi.
Það er misjafnt hve langan tíma fólk þarf til að ná árangri og ræðst það af umfangi vandans. Mörgum nægir hópmeðferðin til að ná fullnægjandi árangri. Sumum getur gagnast að vinna að vandanum í einstaklingsmeðferð áður, samhliða eða eftir að hópmeðferð lýkur.
Árangur er mældur af hópmeðferð sem veitt er við Kvíðameðferðarstöðina og getur þú kynnt þér árangur nokkurra hópmeðferðarúrræða hér.