Ofvirkni og/eða athyglisbrestur er hamlandi vandi sem mikilvægt er að greina og ná tökum á.  Það getur verið hálfur batinn að fá vandann greindan og skýringu á alls konar erfiðleikum sem hafa verið til staðar lengi.

Hjá okkur er hægt að fá greiningu á slíkum einkennum. Greiningin kostar 112.000 krónur eða sem samsvarar sjö sálfræðitímum. Af þessum sjö tímum fara þrír í upplýsingasöfnun þar sem rætt er við þann sem í greininguna fer, símaviðtal tekið við nákominn ættingja (ef unnt er að koma því við og að fengnu leyfi þess sem í greininguna fer), spurningalistar lagðir fyrir og svo farið yfir niðurstöður. Fjórir tímar fara svo í það að taka saman niðurstöður og skrifa skýrslu, sem fólk fær með sér heim. Í upphafi greiningar eru lagðir stuttir skimunarlistar fyrir og aðeins farið út í fulla greiningu ef fólk fer yfir viss mörk á skimunarlistum.

Hafi fólk áhuga á að kanna möguleika á lyfjameðferð í kjölfar greiningar, hvetjum við fólk til að vinna sem fyrst að því að komast að hjá geðlækni. Það getur tekið tíma og getur sá sem annast greininguna ekki alltaf orðið að liði. Ekki skal gengið að því sem vísu að geðlæknir telji að lyf við ofvirkni eða athyglisbresti eigi við, jafnvel þótt fólk greinist með vandann hjá sálfræðingi. Geta ýmsar ástæður verið fyrir því og geðlæknir að vera á öðru máli. Hafi fólk þegar farið í slíka greiningu við Landspítala-háskólasjúkrahús og ekki náð viðmiðum, fást lyfin ekki niðurgreidd, jafnvel þótt fólk fái greiningu annar staðar frá. Þá getur það einnig gerst að fólk nái ekki viðmiðum um ofvirkni eða athyglisbrest í greiningu, þrátt fyrir að hafa ef til vill einhver einkenni og skimunarlistar jafnvel bent til vandans í upphafi.  Erfiðleikarnir sem fólk finnur fyrir geta verið af öðrum toga. Ávallt er skoðað í greiningu hvort önnur vandamál séu til staðar sem ef til vill geta skýrt þau óþægindi sem fólk finnur fyrir. Stuðst er við leiðbeiningar Landlæknis við greiningarnar við KMS, en þær leiðbeiningar má finna á netinu.

Panta má greiningu með því að senda tölvupóst á kms@kms.is, skilja eftir nafn og síma og óska eftir greiningu við athyglisbresti of/eða ofvirkni. Greiningarferlið hefst á tveggja tíma viðtali þar sem skimunarlistar eru lagðir fyrir og upplýsingum safnað. Vilji fólk hætta við bókað skimunarviðtal þarf að láta vita með sólarhrings fyrirvara (með því að senda tölvupóst á ofangreint netfang eða hringja í 534-0110), að öðrum kosti þarf að greiða annan tímann af tveimur (16.500 krónur).