ADHD einkennist af athyglisbresti og/eða ofvirkni/hvatvísi sem kemur fram í bernsku og helst oft fram á fullorðinsár. ADHD getur haft víðtæk áhrif á mörg svið í daglegu lífi, til dæmis sambönd, vinnu, skólagöngu, heimili og líkamlega- og andlega líðan. Það getur verið hálfur batinn að fá vandann greindan og fá skýringu á alls kyns erfiðleikum sem hafa verið til staðar lengi.
Einkenni athyglisbrests geta til dæmis verið:
- Að gera fljótfærnisvillur/klaufavillur
- Eiga erfitt með að halda athygli og fara úr einu í annað án þess að klára það sem byrjað var á
- Heyra ekki það sem sagt er í samræðum
- Eiga erfitt með að fylgja fyrirmælum
- Eiga erfitt með að skipuleggja verkefni og athafnir
- Forðast verkefni sem krefjast mikillar einbeitingar
- Týna hlutum
- Truflast auðveldlega af hljóðum í umhverfinu
- Vera gleyminn í daglegu lífi
Einkenni ofvirkni/hvatvísi geta til dæmis verið:
- Að vera mikið á iði með fætur eða hendur
- Efitt með að sitja kyrr
- Eirðarleysi
- Erfitt með að vera hljóður þegar tómstundaiðju er sinnt
- Vera alltaf á ferðinni eða eins og þeytispjald
- Tala óhóflega mikið
- Grípa fram í með svari áður en lokið er við spurningu
- Erfitt með að bíða í röð
- Grípa fram í eða ryðjast inn í samræður eða athafnir annarra
Við Kvíðameðferðarstöðina er boðið upp á greiningu við ADHD. Byrjað er á skimun þar sem lagðir eru fyrir spurningalistar, komið er í stutt viðtal og fengnar eru upplýsingar frá aðstandendum (ef unnt er að koma því við). Farið er yfir niðurstöður skimunar og séð hvort að ástæða sé til að fara í frekara greiningarferli.
Ef farið er út í fullt greiningarferli er farið yfir sögu einstaklingsins (meðal annars þroskasögu, sjúkrasögu, skólagöngu, atvinnusögu, geðsögu og fleira), farið í gegnum geðgreiningarviðtal með helstu geðröskunum og ADHD greiningarviðtal. Niðurstöður eru síðan teknar saman og viðkomandi fær skýrslu með sér heim með ítarlegum niðurstöðum. Í lokinn er rætt um næstu skref út frá niðurstöðum greiningar.
Hafi fólk áhuga á að kanna möguleika á lyfjameðferð í kjölfar greiningar, hvetjum við fólk til að vinna sem fyrst að því að komast að hjá geðlækni. Það getur tekið tíma og getur sá sem annast greininguna ekki alltaf orðið að liði. Ekki skal gengið að því sem vísu að geðlæknir telji að lyf ADHD eigi við, jafnvel þótt fólk greinist með vandann hjá sálfræðingi. Þá getur það einnig gerst að fólk nái ekki viðmiðum um athyglisbrest eða ofvirkni/hvatvísi í greiningu, þrátt fyrir að hafa ef til vill einhver einkenni og skimunarlistar jafnvel bent til vandans í upphafi. Erfiðleikarnir sem fólk finnur fyrir geta verið af öðrum toga. Ávallt er skoðað í greiningu hvort önnur vandamál séu til staðar sem ef til vill geta skýrt þau óþægindi sem fólk finnur fyrir. Stuðst er við leiðbeiningar Landlæknis við greiningarnar við KMS, en þær leiðbeiningar má finna á netinu.
ADHD skimun kostar 32.000 krónur, en þar er skoðað hvort tilefni þyki til að fara í fulla greiningu. Ef farið er áfram í fullt greiningarferli bætast við 136.500 (greiningin alls 168.500) og hægt er að dreifa greiðslunum ef óskað er eftir því. Ef óskað er eftir því að fá skýrslu á ensku bætast 32.000 krónur (andvirði 1,5 sálfræðitíma) við verð fulls greiningarferlis/If a report in English is requested, there is an additional fee of 32.000 (the equivalent of a 1,5 session extra).
Panta má greiningu með því að senda tölvupóst á kms@kms.is, skilja eftir nafn og síma og óska eftir greiningu við athyglisbresti og/eða ofvirkni. Greiningarferlið hefst á stuttu viðtali þar sem skimunarlistar eru lagðir fyrir og upplýsingum er safnað. Vilji fólk hætta við bókað skimunarviðtal þarf að láta vita með sólarhrings fyrirvara (með því að senda tölvupóst á ofangreint netfang eða hringja í 534-0110), að öðrum kosti greiðir fólk hálft viðtalsgjaldið.