Hárreitiárátta einkennist af langtímaþörf til að reita af sér hár, að því marki að hármissirinn sést. Oftast reitir fólk hár á höfði, augabrúnum eða augnhár en fólk getur einnir reitt hár annars staðar, til dæmis í andliti eða á útlimum. Fólki gengur yfirleitt illa að hætta þessu á eigin spítur og líður illa yfir vandanum. Algengast er að þetta gerist þegar það er spennt eða kvíðið eða þegar það hefur lítið fyrir stafni eða leiðist. Fólk finnur oft fyrir ákveðinni spennu eða hvöt til að reita áður en það byrjar sem svo slaknar á þegar fólk hefur látið undan áráttunni. Með hugrænni atferlismeðferð er farið í gegnum ákveðin skref til að ná tökum á vandanum sem meðal annars felast í því að verða meðvitaðri um ferlið áður en það hefst. Oft virðist þetta nefnilega gerast þegar fólk beinir athyglinni að öðru, er til dæmis að horfa á sjónvarpið, lesa eða keyra, fólk fer eins og í hálfgerðan trans og áttar sig ekki fyrr en það stendur sig að því að vera byrjað. Það er auðveldara að ná stjórn á ávana þegar fólk verður meðvitað um það við hvaða aðstæður þetta gerist. Svo eru kenndar ýmsar leiðir til að snúa þróuninni við og hvetja sig áfram með hugsun og fleira. Mikilvægt er að leita sér aðstoðar því hárreitiárátta getur að öðrum kosti orðið ansi þrálát.

Húðkroppunarárátta er náskyld hárplokkunaráráttu og einkennist af endurteknu kroppi á húð. Menn kroppa venjulega minniháttar misfellur á húðinni svo sem bólur sár eða hrúður og í sumum tilfellur veldur kroppið örmyndun. Líkt og með hárreitiáráttu finnur fólk fyrir ákveðinni spennu eða fiðringi áður en það byrjar og ákveðinni spennulosun eða ánægju við það að kroppa. Vandinn er meðhöndlaður með svipuðum hætti og hárreitiárátta en þessi vandamál eru álíka algeng og hrjá um 1-2% fólks.Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem leita sér aðstoðar. Tengsl þessara vandkvæða við aðra geðraskanir eru sterk og glíma 2/3 í þessum hópi við kvíðaraskanir og rúmlega helmingur með þunglyndi.