Streitustjórnun

Forsíða / Fréttir / Streitustjórnun

Haustið er handan við hornið og spenna í loftinu. Mörg okkar hafa snúið aftur til vinnu og aðrir bíða þess að nýtt skólaár hefjist. Þessum tíma fylgja oft blendnar tilfinningar. Við segjum skilið við frelsi sumarleyfisdaga og framundan bíður rútína og verkefni til að takast á við.

Þegar líða tekur á haustið kemur skýrari mynd af dagskrá vikunnar. Ekki bara er rútínan komin í gang heldur höfum við fengið ákveðna yfirsýn yfir umfang þeirra verkefna sem við þurfum að takast á við. Dagskráin er ansi ströng hjá mörgum. Við nánari athugun áttum við okkur á að það eru einungis 24 tímar í sólahring og einungis svo og svo mikið sem hægt er að koma í verk á þessum 24 tímum.

Streitan fer að segja til sín. Alltof mikið að gera og alltof lítill tími. Áhyggjur fara að þeytast um í kollinum okkar og við spennumst upp vegna álagsins. Eitthvað verður að falla niður í dagskránni til að sinna þessum svokölluðu „skyldum“. Því miður bitnar þetta oft á andlegri og líkamlegri líðan. Við drögum úr athöfnum sem gefa okkur styrkinn til að halda öllum boltunum á lofti t.d. hvíld og líkamsrækt.

Ef markmiðið er að streitan verði ekki í aðalhlutverki enn einn veturinn er upplagt að hefjast strax handa. Við Kvíðameðferðarstöðina er boðið upp á  gagnlegt námskeið í streitustjórnun sem hefst um miðjan september og opið er fyrir skráningu. Námskeiðinu er lýst undir dálkinum “Skoða námskeið” á þessari heimasíðu en meðal þess sem þátttakendum er kennt er að kortleggja streituvalda sína, skoða hverju megi breyta í dagskrá vikunnar, hvernig draga megi úr utanaðkomandi áreitum eða verkefnum og forgangsraða. Jafnframt er unnið með hugarfar sem eykur á streitu og  kröfur sem fólk kann að gera til sín.