Bergenska fjögurra daga meðferðin við ælufælni

Forsíða / Fréttir / Bergenska fjögurra daga meðferðin við ælufælni

Á næstu mánuðum verður boðið upp á bergensku fjögurra daga meðferðina við ælufælni og verða næstu hópar þeirra sem sækja meðferðina við ælufælni á eilítið niðursettu verði þar sem um rannsókn er að ræða. Ef þú vilt kanna þann möguleika má senda tölvupóst á kms@kms.is og óskað eftir matsviðtali fyrir meðferðina. Viðtalið tekur rúma tvo tíma (oftast er um tvo aðskilda tíma að ræða) og er þar skoðað hvort meðferðin komi þér að gagni. Ef svo er, verður meðferðin útskýrð vel fyrir þér, þér gefið tækifæri til að spyrja spurninga og átta þig á því hvort þú viljir taka þátt. Sumir óttast að þeir þurfi að gera eitthvað hræðilegt í meðferðinni, eins og að kasta upp. Tekið skal fram að þátttakendur setja sér sjálfir fyrir verkefni sem þeir telja gagnleg og ráða för í meðferðinni. Sálfræðingar eru á hliðarlínunni og styðja þá í að ná markmiðum sínum.

Hér má heyra frásögn stúlku sem fór í gegnum meðferðina við KMS.

Bergenska fjögurra daga meðferðin var upprunalega þróuð við þráhyggju-árátturöskun (OCD) sem ælufælni á margt sammerkt með. Því eru stundum bæði einstaklingar með þráhyggju og áráttu og ælufælni í sömu meðferðinni og erlendis hefur fólk farið í gegnum Meðferðin hefur jafnframt verið aðlöguð að félagskvíða og ofsakvíða og nú þegar hafa nokkrir einstaklingar farið í gegnum meðferðina við ælufælni við KMS. Meðferðin, sem er afbrigði af berskjöldunarmeðferð, var þróuð af sálfræðingunum Gerd Kvale og Bjarne Hansen við Bergenska háskólasjúkrahúsið. Undanfarin ár hefur áhugi á bergensku meðferðinni verið mikill en þau Gerd og Bjarne voru valin af Time magazine í hóp 50 áhrifamesta fólksins í heilbrigðisgeiranum árið 2018. Útbreiðsla og þjálfun nýrra teyma til að veita meðferðina á alþjóðavísu stendur nú yfir og var OCD teymi KMS fyrsta teymið fyrir utan Noregs sem fékk þjálfun og til að veita meðferðina við OCD. Nú þegar hafa yfir tvö þúsund manns farið í gegnum meðferðina erlendis og rúmlega hundrað við KMS. Niðurstöður fyrstu einstaklinganna með OCD sem fóru í gegnum meðferðina við KMS voru birtar í tímaritinu Clinical Neuropsychiatry árið 2019.

Fjögurra daga meðferðinni er best lýst sem einstaklingsmeðferð í hópi en 3-6 skjólstæðingar eru meðhöndlaðir samtímis af jafnmörgum meðferðaraðilum. Hún sameinar bestu eiginleika einstaklings- og hópmeðferðar; hver og einn hefur sinn  sálfræðing í meðferðinni en nýtur jafnframt stuðnings hópsins þar sem allir glíma við það sama. Meðferðin er aðeins veitt á íslensku sem stendur.

Nánari fyrirspurnir um meðferðina má senda á Ásmund Gunnarsson, sálfræðing teymisstjóra ælufælniteymis, asmundur@kms.is.