Hvað er ælufælni?

Ælu­fælni er lítt þekkt kvíða­röskun sem hrjáir á bilinu 1-5% fólks, í flestum til­fellum konur, og sam­svarar allt að 13.000 Ís­lendingum. Fæstum er vel við það að kasta upp en þeir sem glíma við ælu­fælni óttast upp­köst að því marki að það litar líf þeirra veru­lega. Vandinn heyrir til af­markaðrar fælni en er oftast meira hamlandi, auk þess sem margir í þessum hópi hafa fengið kvíða­köst þar sem ein­kenni frá meltingar­vegi hafa verið á­berandi.

Hvernig lýsir ælu­fælni sér?

Þeir sem haldnir eru ælu­fælni verða ofur­með­vitaðir um ónot frá maga og finna oft tölu­vert fyrir ó­gleði frá degi til dags. Fólk hefur af þessu stöðugar á­hyggjur og reynir eftir fremsta megni að draga úr eða fyrir­byggja ó­gleði og mögu­leg upp­köst, til dæmis með því að forðast al­mennings­sam­göngur, ferða­lög, al­mennings­salerni og stífar líkams­æfingar, veikt eða drukkið fólk, framandi mat og sum mat­væli, svo sem kjúk­ling og skel­fisk. Margir leita hug­hreystingar annarra, fylgjast vel með því hvort mat­væli séu út­runnin og sótt­hreinsa hendur og yfir­borðs­fleti ó­hóf­lega.

Þess eru dæmi að konur fresti barn­eignum eða fara í fóstur­eyðingu af ótta við ó­gleðina sem með­göngunni fylgir. Þá geta for­eldrar með ælu­fælni átt erfitt með að annast börnin sín þegar þau verða veik. Ælu­fælni getur komið niður á heilsunni því sumir nærast illa, forðast töku lyfja þar sem ó­gleði er skráð auka­verkun og snið­ganga læknis­heim­sóknir, að­gerðir og spítala.

Hvað er til ráða?

Það má ná tökum á ælu­fælni og hafa nokkrar rann­sóknir verið gerðar á árangri hug­rænnar at­ferlis­með­ferðar sem lofa góðu. Við Kvíða­með­ferðar­stöðina (KMS) hefur af­brigði af hug­rænni at­ferlis­með­ferð, svo­nefnd bergensk fjögurra daga með­ferð, verið að­löguð að ælu­fælni. Með­ferðin hefur gefið góða raun við þrá­hyggju- og á­ráttu, sem svipar að mörgu leyti til ælu­fælni. Á næstunni mun verða boðið upp á með­ferðina við KMS sem hluta af rann­sóknum stöðvarinnar á ælu­fælni og með­höndlun hennar. Mikil­vægt er bæta þekkingu og með­höndlun þessa hamlandi vanda. Um er að ræða meðferð sem stendur yfir í fjóra daga, eins og nafnið gefur til kynna. Ekki er komin dagsetning á fyrsta hópinn og verður það auglýst innan skamms.

Áhugasamir um þátttöku í meðferðinni geta sent tölvupóst á kms@kms.is og óskað eftir matsviðtali vegna ælufælni en í viðtalinu er metið hvort meðferðin geti verið góður kostur.