Þann 27. apríl hefst námskeiðið Bætt líðan eftir barnsburð sem sálfræðingarnir Hrund Teitsdóttir og Hrefna Guðmundsdóttir sálfræðingar eru að fara af stað með. Hrund svarar hér nokkrum spurningum um námskeiðið.
1. Er þörf á svona námskeiði? Er tíminn eftir barnsburð ekki yndislegur tími fyrir flestar konur? Við teljum að það sé mikil þörf á svona námskeiði þar sem margar konur upplifa depurð, kvíða eða aðra vanlíðan eftir fæðingu og í barnsburðarleyfinu. Flestir hafa þær hugmyndir að þessi tími sé yndislegur og eigi að vera það. Það er ekki þar með sagt að hann sé það ekki, en oft getur hann verið erfiður. Miklar breytingar eru oftast í lífi fólks þegar það eignast barn, bæði félagslega, andlega og líkamlega; konur einangrast oft, líkami kvenna breytist oftast eitthvað eftir barnsburð sem getur haft mikil áhrif á líðan kvenna. Einnig verður oft mikil breyting á sambandi við maka, þegar konur eru í sambandi, hver á að gera hvað, jöfn skipting á frítíma meðal foreldra og fleira. Einnig verður oftast talsverð breyting á svefni hjá nýbökuðum foreldrum sem getur haft mikil áhrif á líðan.
2. Hvernig vanlíðan geta konur fundið fyrir á þessu skeiði? Talið er að um 14% kvenna finni fyrir fæðingarþunglyndi á Íslandi. En sumar konur tengja ekki við að hafa verið þunglyndar heldur finna frekar fyrir auknum kvíða eða óöryggi. Vanlíðanin getur einnig birst í þeirri mynd að konur fari að draga sig meira til hlés og einangra sig.
3. Hvers vegna líður sumum illa meðan aðrir njóta þess til fulls?
Það eru ýmsar kenningar á lofti þar, líðan fyrir barnsburð spáir þar miklu um. Konur sem hafa áður verið þunglyndar eru líklegri til þess að finna fyrir þunglyndi eða kvíða eftir barnsburð. Einnig geta áföll og tengsl við móður spilað inní. Væntingar kvenna til barnsburðarleyfis geta einnig komið við sögu, erfiðleikar í fæðingu, samband við maka og svo getur einnig haft áhrif hvernig barnið er, hvort það sé vært eða óvært.
4.Getur svona námskeið hjálpað? Hvað er farið í á námskeiðinu?
Við erum að fara af stað með námskeið af þessari gerð í fyrsta skiptið hér á KMS, en svona námskeið hafa verið haldin annars staðar og hafa skilað miklum árangri. Á námskeiðinu verða kenndar leiðir til þess að takast á við erfiðar tilfinningar eftir aðferðum hugrænnar atferlisfræði og árverkni (mindfulness). Það sem verður farið í á námskeiðinu er meðal annars tilfinningaleg áhrif þess að eignast barn, hvernig óþægilegar hugsanir geti látið á sér kræla og konur fundið fyrir óöryggi, áhyggjum, kvíða og depurð. Einnig verður fræðsla um hugræna atferlismeðferð, hvernig það sem við hugsum hefur áhrif á hvernig okkur líður. Hugmyndir okkar, kröfur og væntingar til móðurhlutverksins. Hvað er að vera góð móðir? Hvert er hlutverk föður? Ýmsir erfiðleikar sem upp geta komið á þessu skeiði, til dæmis í tengslum við brjóstagjöf, líðan barns, svefn barns og móður, samskipti við fjölskyldu og fleira. Hvernig styrkja megi tengslin við barnið. Breytingar á líkamanum og kynlíf eftir barnsburð. Að hugsa vel um sig, sýna sér skilning og öðlast aukið sjálfsöryggi.
Skráning á námskeiðið fer fram á kms@kms.is eða í síma 534-0110. Þátttakendafjöldi á námskeiðið er takmarkaður.