Þegar leitað er til Kvíðameðferðarstöðvarinnar er fólki fyrst boðið að koma í svo kallað greiningarviðtal. Slíkt viðtal er mikilvægur undanfari allrar meðferðar hvort sem um ræðir einstaklingsviðtöl eða hópmeðferð. Í greiningarviðtali er lagt mat á þann vanda sem fólk vantar aðstoð með og skoðað hvað best sé að gera. Því er mjög gott ef fólk er búið að leggja niður fyrir sig hvað það er sem það vill fá aðstoð með, hvernig sá vandi er að hamla því í daglegu lífi og hvaða markmiðum það vill ná með meðferð.

Fyrir greiningarviðtal biðjum við fólk um að svara spurningalistum sem nýtast við að meta hvers eðlis vandinn er. Við mælumst til þess að fólk ýmist prenti út skjalið hér að neðan, fylli það út heima og komi með það með sér í greiningarviðtalið eða mæti hálftíma áður en greiningarviðtal hefst til að fylla út spurningalistana á staðnum. Þennan spurningalista er hægt að nálgast hjá riturum í afgreiðslu Kvíðameðferðarstöðvarinnar eða í hlekknum hér að neðan.

Í spurningalistanum er fólk beðið að skrá  bakgrunnsupplýsingar, svo sem nafn og símanúmer, og spurt út í ýmis einkenni sem tengst geta kvíða. Góð kortlagning í upphafi stuðlar að því að fólk fái meðferð við hæfi og gerir það að verkum að greiningarviðtalið verður markvissara.

GreiningarvidtalÍ greiningarviðtali kortleggur sálfræðingur þann vanda sem leitað er aðstoðar við í fimmtíu mínútna viðtali en stundum tekur kortlagningin meira en einn viðtalstíma. Þessi kortlagning er mjög mikilvæg til að unnt sé að átta sig á vandanum og hvernig best sé að taka á honum. Undir lok matsviðtals fær fólk álit sálfræðingsins, hvers eðlis vandinn sé og hvað sé best að gera. Það getur verið að sálfræðingur mæli með einstaklingsviðtölum hjá sér eða öðrum til að vinna á vandanum. Sérhæfing er eilítið misjöfn meðal sálfræðinga Kvíðameðferðarstöðvarinnar og í sumum tilvikum kann sálfræðingur að mæla með að meðferð eigi sér stað hjá öðrum en honum.

Hafðu hugfast að sálfræðingar stöðvarinnar hafa þagnarskyldu og farið er með allar upplýsingar sem þú veitir sem trúnaðarupplýsingar, og þær varðveittar sem slíkar. Þú þarft ekki að veita neinar upplýsingar sem þú ekki vilt í greiningarviðtali, en því ítarlegri upplýsingar sem fást um það sem hrjáir þig, því auðveldara er að aðstoða þig við að ná tökum á vandanum. Algengt er að fólk kvíði fyrsta viðtali og finnist erfitt að greina ókunnugri manneskju frá erfiðleikum sínum. Þetta er eðlilegt og oftast léttir fólki þegar það er búið í viðtalinu.

Hér að neðan má sjá meðferðarsamning sem sálfræðingur og skjólstæðingur Kvíðameðferðarstöðvarinnar gera með sér í upphafi meðferðar og þeir spurningalistar sem lagðir eru fyrir fólk fyrir greiningarviðtal. Við hvetjum fólk til þess að prenta samninginn og spurningalistana út og svara þeim áður en mætt er í bókað greiningarviðtal, að öðrum kosti að mæta 30 mínútur fyrir bókaðan tíma í greiningarviðtal til þess að svara spurningalistunum, lesa samninginn vel yfir og undirrita.

Meðferðarsamningur og spurningalistar við komu