Það þarf ekki að vera ,,mikið að” til að réttlæta komu til sálfræðings. Ekkert erindi er of lítilvægt til að fá álit sálfræðings á.  Andleg heilsa er mikilvæg og skynsamlegt að hlúa að henni og leita aðstoðar ef eitthvað er.  Því er orðið sífellt algengara að fólk leiti til sálfræðings þegar eitthvað bjátar á og getur það afstýrt óþarfa vanlíðan og flýtt fyrir góðri líðan.  Það getur einnig dregið úr líkum á að vandinn versni eða taki sig aftur og aftur upp yfir æviskeiðið.  Flestir mega í raun við því að læra leiðir til að bæta líðan sína.

Það er sérstök ástæða til að leita til okkar ef vandi þinn snýst um  kvíða, streitu eða ótta, ekki síst ef þér finnst kvíði þinn vera of mikill, valda þér hugarangri, trufla líf þitt eða hafa verið til staðar lengur en þú kærir þig um.  Óhóflegan kvíða ber að taka alvarlega þar sem hann getur haft svo mikil áhrif á líf og líðan fólks. Stundum verður fólk dapurt í kjölfar langvinns kvíða. Mundu að ávallt ber að leita sér aðstoðar ef fundið er fyrir miklu vonleysi eða lífsleiðahugsunum. Ef depurð er afleiðing kvíða getur það eitt að vinna á kvíðanum dregið úr depurðinni. Hugræn atferlismeðferð ber oftast góðan árangur við kvíða hvort sem vandinn er lítill eða mikill eða hefur verið til staðar í skamman eða langan tíma og er það meðferðarform sem við beitum mestmegnis við Kvíðameðferðarstöðina.

Meðal þess sem við aðstoðum fólk við að ná tökum á eru of miklar áhyggjur af ýmsum toga, fælni við margvíslega hluti, kvíðaköst, streita, óöryggi, feimni og félagskvíði, námstengdur kvíði, þráhyggja og árátta og afleiðingar áfalla. Einnig er hægt að fá mat á einkennum ofvirkni og athyglisbrests hjá okkur.  Ef við metum svo að vandinn liggi utan okkar sérhæfingar og að viðkomandi sé betur kominn í meðferð annars staðar en hjá Kvíðameðferðarstöðinni vísum við viðkomandi í réttan farveg að loknu greiningarviðtali.

Til baka á forsíðu