Eðlilegt er áföll hafi áhrif á fólk og að það taki tíma að jafna sig. Áfallastreituröskun er því aðeins greind jafni fólk sig ekki með tíð og tíma. Hér að neðan er áfallastreitustreituröskun lýst en fólk getur haft gagn af því að vinna úr áföllum sem það hefur ekki fyllilega komist yfir, þótt það uppfylli ekki viðmið um um áfallastreituröskun. Áfallastreituröskun er nokkuð algeng og fær um 10% fólks hana einhvern tímann á ævinni.
Áfallastreituröskun er röskun sem hlotist getur af alvarlegu áfalli sem fólk verður fyrir, þar sem lífi eða velferð þess, eða einhvers annars, er ógnað. Á meðan á áfallinu stendur upplifir fólk mikla hræðslu, hrylling eða vanmátt. Í kjölfarið verða einhverjar af eftirfarandi breytingum á atferli, hugarfari og tilfinningalífi fólks og þurfa einkennin að vera til staðar í a.m.k. mánuð til að greining sé gerð. Fólk leitast við að forðast allt sem minnir á áfallið svo sem hugsanir og tilfinningar tengdar áfallinu, tiltekna staði eða athafnir. Það endurupplifir atburðinn með einum eða öðrum hætti, fær martraðir eða sér hann ljóslifandi fyrir sér. Fólk fer yfirleitt í uppnám þegar eitthvað minnir það á atburðinn. Fólk verður daufara og áhugalausara en það á að sér og á almennt erfitt með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum. Það finnur hins vegar oft fyrir líkamlegri spennu, svefntruflunum, pirringi eða reiði, einbeitingarerfiðleikum, er eilíflega á varðbergi og því bregður auðveldlega. Það upplifir sig einangrað frá öðrum og á erfitt með að sjá framtíð sína fyrir sér. Áfallastreituröskun getur leitt til þunglyndis og misnotkun vímugjafa.
Ert þú haldinn áfallastreituröskun?
Til að teljast vera haldinn áfallastreituröskun þarft þú að uppfylla viðmið fyrir flokka A til H hér að neðan. Athugaðu samt að ekki fæst úr greiningu skorið fyrr en þú hefur fengið mat fagmanns á ástandinu.
Flokkur A: Streituvaldur
Hefur þú orðið fyrir alvarlegu áfalli þar sem þú eða einhver annar var hætt kominn, varð fyrir alvarlegu slysi, kynferðisofbeldi eða lét lífið þannig að a.m.k. eitt af neðangreindu eigi við um þig?
1. Varð fyrir því sjálfur
2. Var vitni að því
3. Óbeint, heyrði að nákominn vinur eða ættingi hefði orðið fyrir áfalli. Ef um dauða eða hættu á dauða viðkomandi var að ræða, þarf það að hafa verið af völdum slyss eða ofbeldis.
4. Var endurtekið, eða í miklum mæli óbeint útsettur fyrir smáatriði áfallsins, oftast vegna eðli starfsins (t.d. meðferðaraðili, björgunarsveitarmaður).
Flokkur B: Endurupplifun atburðar
Atburðurinn er endurupplifaður þannig að a.m.k. eitt af eftirfarandi eigi við þig:
1. Endurteknar, áleitnar og óviljandi minningar um atburðinn. Hjá börnum yngri en 6 ára kann þetta að koma fram í endurteknum leikjum.
2. Martraðir. Börn kunna hins vegar að fá martraðir sem endurspegla ekki atvikið.
3. Hugrof (t.d. endurupplifanir, ,,flashbacks”) sem geta verið allt frá stuttum augnablikum í algeran missi á meðvitund.
4. Umtalsvert uppnám þegar þú ert útsettur fyrir eitthvað sem minnir á áfallið.
5. Greinileg líkamleg viðbrögð eftir að hafa verið útsettur fyrir eitthvað sem minnir á áfallið.
Flokkur C: Forðun
Leggur þú þig fram um að forðast áreiti sem minna á áfallið, þannig að a.m.k. eitt af neðangreindu eigi við?
1. Hugsanir og tilfinningar tengdar áfallinu.
2. Allt í umhverfi þínu sem minnir á áfallið (fólk, staði, athafnir, tiltekin umræðuefni, hluti eða aðstæður)
Flokkur D: Neikvæðar breytingar á hugarfari og líðan
Neikvæðar breytingar á hugarfari eða líðan sem byrjaði eða versnaði eftir að áfallið átti sér stað, þannig að a.m.k. tvennt af eftirtöldu eigi við:
1. Á erfitt með að muna mikilvæg atriði áfallsins
2. Neikvæð og ýkt viðhorf um sjálfa(n) sig, aðra eða heiminn eftir áfallið
3. Þrálátar og skekktar hugsanir um orsakir eða afleiðingar atburðarins, sem fá viðkomandi til að kenna sér eða öðrum um
4. Þrálátt neikvætt tilfinningalíf
5. Greinilega minnkaður áhugi eða þátttaka í mikilvægum athöfnum
6. Upplifir sig fjarlægan eða aftengdan öðrum
7. Þrálátir erfiðleikar með að upplifa jákvæðar tilfinningar
Flokkur E: Breytingar á örvunarstigi og viðbrögðum tengdum atburðinum, a.m.k. tvennt af eftirfarandi:
1. Pirringur eða árásargirni
2. Sjálfskaðandi eða kæruleysisleg hegðun
3. Ofurárvekni (hypervigilance)
4. Ofurviðbrigðin(n)
5. Einbeitingarerfiðleikar
6. Svefntruflanir
Flokkur E: Lengd
Einkennin (í flokkum B, C, D og E) hafa verið til staðar í a.m.k. mánuð
Flokkur G: Truflun á lífi
Ofangreind einkenni þurfa að valda þér vanlíðan og trufla líf þitt (t.d. félagslega, starfslega)
Flokkur H: Útilokunarskilyrði
Vandinn stafar ekki af lyfjum, neyslu eða annarri geðröskun.
Hvernig er áfallastreita meðhöndluð við Kvíðameðferðarstöðina?
Við Kvíðameðferðarstöðina er áfallastreita ýmist meðhöndluð með aðferð sem nefnist CPT (Cognitive Processing Therapy) eða EMDR (Eye Movement Desensitisation Processing). Mælt er með báðum aðferðunum til meðhöndlunar á afmörkuðum áföllum af breskum heilbrigðisyfirvöldum (NICE guidelines). Sú fyrrnefnda er hrein atferlismeðferð en sú síðarnefnda sameinar eiginleika ýmissa meðferðarforma, svo sem hugrænnar atferlismeðferðar, dýnamískrar meðferðar, interpersonal meðferðar og líkamsmiðaðrar (body centered) meðferðar. Nánari upplýsingar á EMDR má finna á www.emdr.is. Í báðum meðferðunum fær fólk aðstoð við að vinna úr áfallinu og áhrifum þess á sjálfsmyndina.
Lesefni um áfallastreituröskun
Herberg, C. og Wetmore, A. (1999). Overcoming Traumatic Stress: A self-help guide using cognitive behavioral techniques. London: Robinson.
Freedman, K. L. (2914). One hour in Paris: A true story af rape and recovery. Chicago: The University of Chicago Press.