Fjögurra daga meðferð við OCD og ælufælni

Forsíða / Hópmeðferð / Fjögurra daga meðferð við OCD og ælufælni

Bergenska fjögurra daga meðferðin var þróuð til að meðhöndla alvarlegar kvíðaraskanir og hefur mest verið rannsökuð við þráhyggju-árátturöskun (OCD) og árangurinn lofað mjög góðu. Meðferðin var þróuð af sálfræðingunum dr. Gerd Kvale og dr. Bjarne Hansen við Bergenska háskólasjúkrahúsið og undanfarin ár hefur áhugi fyrir þessu meðferðarformi farið vaxandi á erlendri grundu en til að mynda voru Gerd og Bjarne valin af Time magazine í hóp 50 áhrifamesta fólksins í heilbrigðisgeiranum árið 2018. Útbreiðsla og kerfisbundin þjálfun nýrra teyma til að veita meðferðina á alþjóðavísu stendur nú yfir en OCD teymi Kvíðameðferðarstöðvarinnar var fyrsta teymið fyrir utan Noreg sem fékk þjálfun og handleiðslu til að veita fjögurra daga meðferðina við OCD og hafa nú yfir hundrað manns farið í gegnum meðferðina á Íslandi. Nýverið var meðferðin aðlöguð að ælufælni og verða framvegis OCD og ælufælni meðhöndluð saman enda um skyld vandamál að ræða sem sama meðferð virkar við.

Fjögurra daga meðferðinni er best lýst sem einstaklingsmeðferð sem fer fram í hópi en 3-6 skjólstæðingar eru meðhöndlaðir samtímis af jafnmörgum meðferðaraðilum. Þetta tryggir að meðferðin sé sérsniðin að hverjum og einum og fá þátttakendur nægan stuðning á meðan þeir fá þjálfun í berskjöldunaræfingum en njóta á sama tíma kosta þess að vera í hópi fólks sem er að kljást við sama vanda. Áður en meðferð hefst fá skjólstæðingar góðan undirbúning og fræðslu til þess að þeir viti við hverju er að búast í meðferðinni og hafi tekið upplýsta ákvörðun um að taka frá þessa fjóra daga og tileinka sig því vinna í átt að breytingum.

Kvíðameðferðarstöðin getur aðeins veitt þessa meðferð á íslensku og því þurfa skjólstæðingar að vera vel að sér í íslensku til að taka þátt í fjögurra daga meðferðinni.

Ef þú hefur áhuga á þessu meðferðarúrræði er fyrsta skrefið að koma í greiningarviðtal hjá sálfræðingi í OCD eða ælufælniteyminu. Þú getur sent beiðni með því að smella HÉR. Mundu að skrifa inn í boxið skilaboð að þú óskir sérstaklega eftir þessu úrræði og hvort um OCD eða ælufælni sé að ræða. Þú getur einnig skráð þig með því að hringja í síma 5340110 milli kl. 9:00 – 15.30 alla virka daga.

Nánari fyrirspurnir um meðferðina og vísanir má senda til Ólafíu Sigurjónsdóttur teymisstjóra OCD-teymis olafia@kms.is og Ásmund Gunnarsson, asmundur@kms.is, teymisstjóra ælufælniteymis.

Hér má lesa meira um meðferðina

Hér má sjá myndbönd um meðferðina: