Við Kvíðameðferðarstöðina starfar áfallateymi sem Hrund Teitsdóttir sálfræðingur stýrir. Meðlimir teymis njóta reglulegrar handleiðslu frá einum færasta sérfræðingi Breta í áfallastreituröskun, Martinu Mueller, og eru tveir meðlimir teymis, þau Kristjana Þórarinsdóttir og Jóhann Pálmar Harðarson, í doktorsnámi á þessu sviði. Aðrir meðlimir teymis eru Halldór Arnarsson, Sóley D. Davíðsdóttir og Vala Thorsteinsson en Vala starfar við litlu KMS og sinnir áföllum ungmenna. Beiðnum sem berast KMS þar sem óskað er eftir aðstoð til að vinna úr áföllum er vísað til þessa teymis.
Ef þú hefur orðið fyrir áfalli sem þú hefur ekki jafnað þig á getur verið ástæða til að fá aðstoð áfallateymis. Ef þú til dæmis hugsar mikið um áfallið eða mátt ekki til þess hugsa, líður öðru vísi en áður, forðast aðstæður, fólk og staði sem minna á áfallið og endurupplifir það með einum eða öðrum hætti, t.d. í formi minningarblossa, martraða eða áleitinna hugsana, gætir þú glímt við áfallastreituröskun. Það má ná góðum tökum á henni en í meðfylgjandi myndbandi er henni vel lýst.