Margir sem haldnir eru kvíða finna fyrir þunglyndiseinkennum. Langvinnur kvíði getur leitt til þunglyndis en þegar svo er getur þunglyndið minnkað þegar kvíðinn er meðhöndlaður. Ef þunglyndiseinkenni eru mikil getur hins vegar þurft að meðhöndla þau sérstaklega. Neðangreindar spurningar geta hjálpað þér að átta þig á hvort þú sért haldin(n)þunglyndi. Ég hvet þig til að leita þér faglegar aðstoðar finnir þú fyrir vonleysi eða sjálfsvígshugsunum. Með réttri aðstoð má ná góðum tökum á þunglyndi. Merktu við þau einkenni hér að neðan sem þér finnst hafa átt við þig undanfarnar tvær vikur. Til að litið sé svo á að um þunglyndisskeið sé að ræða, þarft þú að hafa a.m.k. fimm einkenni og þarf eitt þeirra að snúa að depurð eða áhugaleysi:

    Hefur þú verið dapur eða döpur mest allan daginn, næstum því alla daga undanfarnar tvær vikur?

    Hefur þú fundið fyrir greinilega minnkuðum áhuga á nánast öllum athöfnum daglegs lífs, nánast alla daga, mest allan daginn?

    Hefur þú lést eða þyngst án þess að vera að reyna að hafa áhrif á þyngd þína (a.m.k. 5% af líkamsþyngd undanfarinn mánuð) eða fundið fyrir minnkaðri matarlyst flest daga?

    Hefur þú átt erfitt með að sofa eða haft aukna svefnþörf flesta daga?

    Hefur hægt á hreyfingum þínum, eða þær verið örari, flesta daga (sem aðrir taka eftir)?

    Finnur þú fyrir þreytu eða orkuleysi næstum alla daga?

    Ert þú þjakaður af óhóflegri sektarkennd eða upplifir þig einskis virði næstum alla daga?

    Hefur dregið úr getu þinni til að hugsa eða einbeita þér, eða átt þú erfitt með að taka ákvarðanir næstum alla daga?

    Færð þú endurteknar hugsanir um dauðann eða sjálfsvígshugsanir?