Flugfælni

Flugfælni er mjög mikill eða óraunhæfur rótti við aðstæður sem tengjast flugferðum sem verður oft til þess að fólk forðast að fljúga. Að auki verður óttinn að valda fólki verulegri vanlíðan eða skerðingu í lífsgæðum til þess að teljast fælni. Sumir með flugfælni forðast flugferðir alfarið á meðan aðrir fljúga ef þeir nauðsynlega þurfa en eru þá óttaslegnir alla flugferðina. Fólk sem þjáist af flugfælni en flýgur samt þegar þörf er á hefur tilhneigingu til þess að nota ýmar aðferðir til þess að minnka ónotin á meðan flugi stendur, eins og að dreifa huganum (t.d. með tónlist eða lestri), taka inn róandi lyf, drekka áfengi, eða að fljúga aðeins undir ákveðnum skilyrðum (t.d. í ákveðnum tegundum af flugvélum, á ákveðnum árstímum). Flestir sem eru flugfælnir kvíða því að flugvélin gæti brotlent eða að flugvélinni verði rænt af flugræningjum. Fjöldi þátta hafa svo áhrif á hversu sterkur óttinn er hjá hverjum og einum. Þættir eins og slæmt veður, ókyrrð í lofti eða óvenjuleg hljóð í flugvélinni auka oft á óttann hjá fólki. Á sama hátt geta þættir eins og lengd flugs og ákveðnir hlutar flugsins (t.d. lofttaka eða lending) haft áhrif á styrk óttans. Það eitt að hugsa um að vera staddur á flugvelli eða á leið inn í flugvél getur vakið ótta hjá sumum.

Innilokunarkennd

Innilokunarkennd er mikill eða óraunhæfur ótti við að vera í aðstæðum þar sem eitthvað þrengir að manni eða maður getur lokast inni í. Innilokunarkenndin verður yfirleitt til þess að fólk forðast aðstæður af þessum toga, og veldur fólki þjáningu eða röskun á lífi þess. Dæmigerðar aðstæður sem fólk með innilokunarkennd forðast eru að sitja í aftursæti í þriggja dyra bíl, fara í lyftur, lítil herbergi, hellar, vera með mótorhjólahjálm, vera inni í læstu eða lokuðu herbergi (t.d. á salerni), fara í sturtu eða gufubað, ferðast í gegnum jarðgöng, vera faðmað, vera inni í skápum, á háaloftum eða í kjöllurum, fara í segulómunartæki, gluggalaus rými, fljúga, liggja í rúmi með sæng yfir höfuðið. Ekki forðast allir með innilokunarkennd sömu aðstæðurnar. Þess ber þó að geta að fólk getur forðast ofangreindar aðstæður af öðrum sökum en innilokunarkennd. Til dæmis forðast fólk með ofsakvíða (panic disorder) lokuð rými af ótta við að fá kvíðakast, auk annarra aðstæðna þar sem það gæti átt von á að fá kvíðakast. Ólíkt fólki með ofsakvíða greinir einstakingar með innilokunarkennd frá ótta við tilfinninguna um að vera innilokaðir, þvingaðir eða komast hvergi úr aðstæðunum. Að auki greina einstaklingar með innilokunarkennd oft frá köfnunartilfinningu þegar þeir eru staðsettir í lokuðum rýmum.

Lofthræðsla

Lofhræðsla (height phobia) er yfirdrifinn eða órökréttur ótti við að vera í mikilli hæð. Þegar lofthræddir eru í aðstæðum sem þeir óttast finna þeir fyrir skyndilegum og ofsafengnum ótta sem getur tekið á sig form nokkurs konar kvíðakasta. Lofthræðsla leiðir iðulega til forðunar frá stöðum sem eru í einhverri lofthæð og þarf að valda mikilli vanlíðan eða hömlum á daglegu lífi fólks til þess að ná því að vera yfirdrifinn ótti við hæð eða það sem í sálfræði er kallað fælni. Þannig myndum við ekki kalla það fælni ef að manneskja sem óttast það að vera í mikilli hæð hefur sjaldan ástæðu til þess að vera á stöðum í mikilli hæð. Hafi manneskja á hinn bóginn það að atvinnu að keyra en forðast að keyra yfir brýr eða upphækkaða vegi vegna lofthræðslu myndum við greina slíkt sem fælni vegna mögulegrar truflunar sem það myndi valda viðkomandi í starfi. Þær aðstæður sem lofthræddir hræðast gjarnan eru stigar, húsþök, að standa uppi á stól eða borði, að ganga eða keyra yfir brú, að keyra á upphækkuðum vegum, að nota lyftur, að vera í glerlyftu, að fara upp háar byggingar, að horfa á kvikmyndir sem sýna mikla lofthæð, að nota brunastiga, að vera úti á svölum, að sitja á svölum í bíó eða leikhúsi. Auðvitað er það svo að fólk með lofthræðslu sem fælni forðast ekki allar þessar aðstæður.

Tannlæknafælni

Tannlæknafælni er mikill eða óraunhæfur ótti við að fara til tannlæknis. Tannlæknafælnin verður yfirleitt til þess að fólk forðast heimsóknir til tannlækna og frestar nauðsynlegum tannviðgerðum sem gerir það að verkum að ástand tanna getur verið mjög slæmt, og veldur fólki þjáningu eða röskun á lífi þess. Töluvert ber á tímaafpöntunum hjá þeim sem þjást af tannlæknafælni. Þess ber þó að geta að fólk getur forðast ofangreindar aðstæður af öðrum sökum en tannlæknafælni. Til dæmis getur fólk með ofsakvíða (panic disorder) átt erfitt með að fara til tannlæknis af ótta við að fá kvíðakast í tannlæknastólnum.    

Ælufælni