Við Kvíðameðferðarstöðina er veitt hugræn atferlismeðferð (skammstafað HAM) sem er sérstakt meðferðarform sem grundvallast á þeirri hugmynd að hugsanir, tilfinningar og hegðun hafi áhrif á hvert annað. Hafa megi áhrif á líðan með í því að endurskoða hugarfar og hegðun. Þannig megi draga úr kvíða með því að endurskoða þær hugmyndir sem vekja upp kvíða. Sameiginlegt með öllum kvíðavanda er einmitt að tiltekin fyrirbæri eða aðstæður, t.d. geitingar, líkamseinkenni eða skoðanir annarra eru álitin ógnvænlegri en þau raunverulegu eru. Í HAM vinna sálfræðingur og skjólstæðingur að því að sannreyna hvort þessar hugmyndir eigi við rök að styðjast og prófa þær með ýmsum hætti. Þetta er meðal annars gert með atferlistilraunum þar sem látið er á það reyna hvort það geti gerst sem fólk óttast. Þegar trúin á það versta er að engu orðin dregur verulega úr kvíðanum. Sálfræðingur og sá sem meðferðin sækir vinna í þessari meðferð saman sem teymi, setja sér skýr markmið í upphafi meðferðar, kortleggja vandann vel og vinna markvisst að úrlausn vandans, meðal annars með heimaverkefnum sem ákveðin eru undir lok hvers tíma. Heimaverkefni geta meðal annars falist í því að lesa tiltekið lesefni yfir, skrá hugsanir eða atferli, eða gera tilteknar æfingar eða tilraunir. Í upphafi hvers tíma er yfirleitt farið í hvað viðkomandi hefur tekist á við síðan síðast og farið yfir undir lok tímans hvað gagnlegt sé að takast á við næst.Því meiri vinnu sem fólk er tilbúið að leggja í meðferðina, því meiri árangri má búast við. Með reglulegu millibili í meðferð er skoðað hvernig meðferðinni vegnar, og hvernig gangi að ná markmiðum. Þetta er meðal annars gert með fyrirlögn matstækja.
Árangur hugrænnar atferlismeðferðar
Hugræn atferlismeðferð ber góðan árangur við kvíða og er mælt með þessu meðferðarformi við öllum kvíðaröskunum í klínískum leiðbeiningum breskra heilbrigðisyfirvalda. Nokkrar íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á árangri HAM við kvíða og lofa þær mjög góðu. Árangur er mældur af þeirri meðferð sem veitt er við Kvíðameðferðarstöðina og getur þú kynnt þér árangur
Efasemdir skiljanlegar
en þetta meðferðarform sameinar bæði aðferðir hugrænnar meðferðar (cognitive therapy) og atferlismeðferðar (behavior therapy). Í hugrænni meðferð fær fólk aðstoð við að breyta óhjálplegu hugarfari þannig að líðanin fari batnandi og fólk geti gert það sem það vill. Í atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að breyta atferli sínu, til dæmis takast smátt og smátt á við það sem það kvíðir, en við það fer líðanin smám saman batnandi og fólk öðlast meiri trú á getu sinni. Sérstök áhersla er lögð á atferlismeðferðarþáttinn við Kvíðameðferðarstöðina.
Kostir hópmeðferðar
Meðferð við Kvíðameðferðarstöðina er oftast veitt í hóp þótt einstaklingsviðtöl komi í sumum tilvikum til greina. Kostir hópmeðferðar eru þeir að þátttakendur geta lært hver af öðrum og hvatt hvern annan til að takast á við það sem þeir óttast, það er oft skemmtilegt í hópunum og unnt að setja á svið ýmsar æfingar sem erfiðara er að koma við í einstaklingsviðtölum. Þegar um félagskvíða er að ræða hefur það eitt að mæta í hópinn meðferðarlegt gildi, þar sem kvíðinn fer smám saman minnkandi eftir því sem fólk er lengur í hópnum. Fólk á hins vegar oft erfitt með að hafa sig í að mæta í fyrstu skiptin, eins og eðlilegt er, en mæti það í fyrstu skiptin þrátt fyrir kvíðann er það komið yfir erfiðasta hjallann og mun kvíðinn eftir það smám saman fara minnkandi. Hópmeðferðinni svipar að miklu leyti til kennslu í þeim skilningi að veitt er talsverð fræðsla um kvíða í fyrstu tímunum og aðferðir kenndar, og síðar æfðar, til að ná tökum á kvíðanum. Hópmeðferð hjá sálfræðingum er hlutfallslega ódýrari en einstaklingsviðtöl og getur borið jafngóðan, og stundum betri, árangur en einstaklingsmeðferð.
Fyrirkomulag hópmeðferðar
Hópmeðferðin stendur að jafnaði yfir í 6 til 10 vikur eftir því hvaða kvíðaröskun á í hlut. Hópurinn hittist oftast vikulega í tvo til tvo og hálfan tíma í senn, og er kaffipása um miðbik tímans. Yfirleitt veita sálfræðingar fræðsluerindi um einhverja þætti kvíða og kvíðastjórnunar í fyrri tímanum og eru æfingar í þeim seinni. Æfingarnar eru mismunandi og fara eftir því hvers eðlis kvíðinn er. Reynt er að raða æfingum eftir erfiðleikastigi og er byrjað á æfingum sem vekja tiltölulega lítinn kvíða, og æfingarnar smám saman þyngdar eftir því sem fólk verður betra af kvíðanum. Með þessu móti verða æfingarnar viðráðanlegar og eru þátttakendur aldrei neyddir til að gera eitthvað sem þeir ekki vilja. Þeir eru hins vegar hvattir til að takast á við eins erfiðar æfingar og þeir treysta sér til. Því meiri kvíða sem fólk er tilbúið að leggja á sig við æfingarnar, þeim mun meiri árangri skila þær. Þess ber að geta að það vekur ávallt kvíða í fyrstu þegar fólk er að takast á við það sem það óttast, en þrauki það í meðferðinni þrátt fyrir kvíða, verður það smám saman betra af kvíðanum.
Það er misjafnt hvað fólk þarf langan tíma í hópmeðferð og ræðst það m.a. af því hve kvíðinn er mikill og hversu lengi hann hefur verið til staðar. Framhaldshópar verða í boði fyrir þá sem vilja ná meiri árangri, að lokinni hópmeðferð. Í sumum tilvikum getur einnig komið til greina að halda áfram í einstaklingsviðtölum. Áhersla er lögð á veita þá meðferð sem hver og einn þarf á að halda, eins lengi og til þarf til að ná tilætluðum árangri.
Undirbúningur komuviðtals
Þegar þú kemur fyrst í Kvíðameðferðarstöðina mun einn af sálfræðingum stöðvarinnar korleggja vanda þinn með þér í um það bil klukkutíma viðtali (oft tekur fyrsta viðtal aðeins lengri tíma), og nefnist slíkt viðtal mats-, greiningar- eða komuviðtal. Þessi kortlagning skiptir sérstaklega miklu máli til að unnt sé að átta sig vel á vanda þínum og hvernig sé best að taka á honum. Hafðu hugfast að sálfræðingar stöðvarinnar hafa þagnarskyldu og farið er með allar upplýsingar sem þú veitir, þar á meðal spurningalista sem þú fyllir út, sem trúnaðarupplýsingar, og þær varðveittar sem slíkar. Þú þarft ekki að veita neinar upplýsingar sem þú ekki vilt í komuviðtali, en því ítarlegri upplýsingar sem þú veitir, því auðveldara er að aðstoða þig við að ná tökum á vandanum. Algengt er að fólk kvíði fyrsta viðtali og finnist erfitt að greina ókunnugri manneskju frá erfiðleikum sínum. Það er eðlilegt og oftast léttir fólki þegar það er búið að koma.
Ef þú vilt undirbúa þig undir komuviðtalið geturðu litið á meðfylgjandi spurningar, sem eru nokkrar þeirra sem spurðar eru í komuviðtali. Fyrst koma nokkrar bakgrunnsspurningar t.d. um nafn þitt, kennitölu og símanúmer. Þessar upplýsingar eru gagnlegar ef við skyldum vilja ná í þig, t.d. til að bjóða þér viðtal eða þátttöku í hópmeðferð. Á eftir bakgrunnsspurningunum fara nokkrar spurningar sem geta aðstoðað þig, og þann sem þú hittir, að átta sig betur á vanda þínum.
Viljir þú nýta komuviðtalið sem best, er þér velkomið að koma með svarblaðið útfyllt í viðtalið. Þegar þær grunnupplýsingar liggja fyrir gefst meiri tími í viðtalinu til að skoða vandann vel og leita leiða til úrlausna.
Undirbúningur greiningarviðtals
Þegar þú kemur fyrst í Kvíðameðferðarstöðina mun sálfræðingur stöðvarinnar kortleggja vanda þinn með þér í klukkutíma viðtali,
og nefnist slíkt viðtal greiningarviðtal. Þessi kortlagning er mikilvæg til að unnt sé að átta sig á vanda þínum og hvernig best
sé að taka á honum. Hafðu hugfast að sálfræðingar stöðvarinnar hafa þagnarskyldu og farið er með allar upplýsingar sem þú veitir sem
trúnaðarupplýsingar, og þær varðveittar sem slíkar. Þú þarft ekki að veita neinar upplýsingar sem þú ekki vilt í greiningarviðtali, en
því ítarlegri upplýsingar sem fást um það sem er að hrjá þig, því auðveldara er að aðstoða þig við að ná tökum á vandanum.
Algengt er að fólk kvíði fyrsta viðtali og finnist erfitt að greina ókunnugri manneskju frá erfiðleikum sínum. Þetta er eðlilegt og
oftast léttir fólki þegar það er búið að koma.
Verð fyrir einstaklingsviðtöl verður 10000 krónur hjá sálfræðingum KMS. Tryggingastofnun tekur ekki þátt í að niðurgreiða viðtöl hjá sálfræðingum enn sem komið er, en í sumum tilvikum taka stéttarfélög þátt í kostnaði vegna sálfræðiþjónustu. Venjan er að greitt er eftir hvert viðtal og er tekið við debet- og kreditkortum. Í einstaka tilvikum leggur fólk inn á reikning kms, en reikningsnúmer KMS er 0526-26-2011, kt. 690507-2340.
Þátttaka á námskeiðum á vegum KMS er hlutfallslega ódýrara en að sækja einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingum. Tveggja klukkustunda langur tími kostar nú 59000krónur en venjan er að greitt er fyrir hópmeðferðina í einu lagi undir lok fyrsta hópmeðferðartíma eða áður en hópmeðferðin hefst.
Yfirlit yfir þáttöku stéttarfélaga við kostnað á sálfræðiþjónustuSálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd af Tryggingastofnun ríkisins, en ýmis stéttarfélög taka þátt í kostnaði sálfræðimeðferðar fyrir meðlimi sína (sjá má lista hér að neðan yfir sum þeirra stéttarfélöga sem niðurgreiða sálfræðiþjónustu fyrir meðlimi sína. Hafa ber í huga að listinn er ekki tæmandi og að breytingar kunna að hafa átt sér stað frá því að listinn var gerður).Yfirlit yfir nokkur stéttarfélög sem taka þátt í greiðslu á sálfræðiþjónustu. Listinn er frá árinu 2007 og er ekki tæmandi. Við hvetjum því fólk til þess að hafa samband við það stéttarfélag sem það heyrir til og kanna til hlítar hver réttindi þess eru.
STÉTTARFÉLAG |
SÍMI |
FYRIRKOMULAG |
BHM | 581-2090 | Hámark 40.000 kr. á ári |
BSRB | 525-8300 | 4.000 kr. fyrir tímann, hámark 15 tímar á ári |
Efling | 510-7500 | 3.000 kr. fyrir tímann, hámark 15 tímar á ári |
Rafiðnaðarsambandið | 580-5200 | 40% af kostnaði í allt að 25 skipti |
VR | 510-1700 | Ef á inni í varasjóði |
Verkalýðsfélagið Hlíf | 555-0944 | 2.500 fyrir tímann, hámark 10 tímar á ári |
Stéttarfélag verkfræðinga | 568-9986 | 2.000 krónur fyrir tímann, hámark 15 tímar á 2 ára tímabili (gildir fyrir verkfræðinga sem starfa hjá ríkinu eða sveitafélögum) |
Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja | 540-6100 | 10 skipti á hverjum 12 mánuðum að hámarki 7000 krónur hvert skipti |
Árangur verður mældur af þeirri meðferð sem veitt verður við Kvíðameðferðarstöðina, til að tryggja gæði þeirrar meðferðar sem þar verður veitt. Þetta verður gert í fullu samráði við, og að fengnu leyfi, Vísindasiðanefndar, Persónuverndar og þátttakenda í meðferð (sem veita skriflegt leyfi sitt séu þeir samþykkir því að gögn þeirra verði notuð til árangursmælinga. Engar upplýsingar koma fram í rannsóknargögnum sem hægt er að rekja til einstakra þátttakenda).
Þar sem Kvíðameðferðarstöðin er ný af nálinni, liggja ekki enn fyrir árangursmælingar af meðferðinni. Þær verða hins vegar birtar á heimasíðunni um leið og þær liggja fyrir. Hins vegar hafa verið gerðar árangursmælingar af hópmeðferð við félagsfælni, sem Sóley D. Davíðsdóttir, sálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina, veitti á Kleppi, ásamt öðrum sálfræðingi, með reglulegu millibili á árunum 2002 til 2005. Hér á eftir fara þær niðurstöður.
Árangur af meðferð við félagsfælni
Hugræn atferlismeðferð í hóp er það meðferðarform sem mest hefur verið rannsakað og hefur sýnt hvað bestan árangur við félagsfælni. Fjöldi rannsókna hefur verið gerður erlendis og í það minnst tvær rannsóknir á Íslandi. Verður tæpt á niðurstöðum annarrar þeirra sem birtar voru í nýjasta hefti Sálfræðiritsins, tímariti Sálfræðingafélags Íslands .
Rannsóknin varð gerð á göngudeild endurhæfingasviðs að Kleppi. Teknar voru saman niðurstöður fyrir sex hópmeðferðir sem Sóley Dröfn Davíðsdóttir og Guðrún Íris Þórsdóttir sálfræðingar veittu þar frá 2002 til 2005. Hver hópmeðferð var veitt vikulega í tíu vikur, í tvo og hálfan tíma í senn. Félagsfælin var víðtæk og alvarleg hjá langflestum þátttakendum. Mikill meirihluti þátttakenda var með þrjár eða fleiri geðraskanir svo sem geðklofa eða geðhvarfasýki auk félagsfælni. Engu að síður lækkuðu þátttakendur töluvert á félagskvíða á meðan á hópmeðferðinni stóð. Þeir stóðu hins vegar í stað á félagskvíðanum á meðan þeir voru á biðlista. Á grafinu hér fyrir neðan geturðu séð hvernig þátttakendur lækkuðu á félagskvíða [mælt með félagskvíðakvarða Liebowitz] á meðan á meðferð stóð, samanborið tímabilið þar sem þeir voru á biðlista.
Þess ber að geta að fólk telst vera með víðtæka félagsfælni fái það fleiri en 60 stig á félagskvíðakvarða Liebowitz. Þátttakendur eru enn fyrir ofan þau mörk að lokinni tíu vikna hópmeðferð. Þeir eru enn með meiri félagskvíða en gengur og gerist, þrátt fyrir að félagskvíðinn sé töluvert minni en hann var við upphaf námskeiðs. Hins vegar má segja að lækkunin á félagskvíða sé töluverð á ekki lengri tíma en tíu vikum. Árangurinn hefði trúlega verið enn meiri, hefði námskeiðið verið lengt um nokkrar vikur. Þá ber einnig að hafa í huga að langflestir þátttakendur í hópmeðferðinni áttu við aðrar geðraskanir en félagsfælni að stríða, sumar þeirra alvarlegar. Búast má við aðeins hægari bata þegar svo er. Hér má sjá greinina í heild sinni lesið nánar