Sjálfstraust vísar til þeirrar heildarskoðunar sem við höfum á okkur sjálfum, hvernig við metum okkur og hvaða skilning við leggjum í okkur sem manneskju. Í raun felst lágt sjálfstraust í þeim grunnviðhorfum sem þú hefur Samkvæmt sálfræðingnum Melanie Fennell felst kjarninn í lágu sjálfstrausti í þeim grunnviðhorfum sem þú hefur til sjálfs/sjálfrar þín og þær hugmyndir sem þú hefur um hvernig manneskja þú sért. Þér finnst þetta trúlega vera nákvæm endurspeglun á því hvernig þú raunverulega ert, en í rauninni eru þetta skoðanir og ekki staðreyndir. Eins konar samantekt eða niðurstaða sem þú hefur komist að um sjálfan(n) þig út frá reynslu þinni í lífinu, ekki síst út frá þeim skilaboðum sem þér hafa verið send um hvernig manneskja þú sért. Neikvæðar skoðanir á sjálfum sér er kjarninn í lágu sjálfstrausti. Og þessar skoðanir kunna að hafa litað mörg svið í lífi þínu.

Hver eru einkenni lágs sjálfstrausts?

Manneskja með lágt sjálfstraust er venjulega feimin og óörugg innan um aðra. Hún hefur jafnvel eilítið innhverft göngulag og forðast augnsamband. Þegar hún talar á hún það til að gagnrýna sig og afsaka, gerir lítið úr hrósi sem hún fær og einblínir á veikleika sína og galla. Hún finnur oft fyrir kvíða, spennu, sektarkennd, skömm, pirringi og jafnvel depurð og reiði. Hún er mjög meðvituð um hvernig hún kemur fyrir, viðkvæm fyrir vanþóknun og gagnrýni, leitast við að þóknast öðrum eða forðast jafnvel alla nánd eða samskipti. Hún á oft erfitt með að kröfur til annarra og láta í ljós óskir sínar. Sumir með lágt sjálfstraust bregðast raunar við með því að reyna að vera hrókur alls fagnaðar, því að þeir trúa að ef þeir geri það ekki, muni aðrir ekki vilja þekkja þá. Manneskja með lágt sjálfstraust gæti verið áhugalaus um eigið útlit, farið illa með sig eða lagt alveg sérstaklega mikið upp úr útlitinu og því að hafa heimilið óaðfinnanlega þrifið. Þetta geta allt verið merki um lágt sjálfstraust.

Ástæður fyrir lágu sjálfstrausti

Helstu ástæður fyrir lágu sjálfstrausti frá bernsku eru ítrekuð refsing, vanræksla eða misnotkun, skortur á hrósi, ást og hlýju ásamt því að standa ekki undir væntingum foreldra eða félaga. Það getur einnig stuðlað að lágu sjálfstrausti að tilheyra minnihlutahóp sem verður fyrir barðinu á fordómum. Þegar eitthvað af þessu er, er hætta á að barn myndi sér þá skoðun á sjálfu sér að það sé á einhvern hátt ekki eins og það eigi að vera. Helstu neikvæðu hugmyndir sem fólk hefur um sjálft sig er að það sé vont, vitlaust, óaðlaðandi, leiðinlegt, lítils eða einskis virði, öðru vísi og að engum geti þótt vænt um það.

Hvað viðheldur lágu sjálftrausti?

Þér finnst kannski enn erfitt að draga þessi grunnviðhorf í efa. Þegar grunnviðhorf hafa á annað borð myndast, geta þau verið ótrúlega lífsseig. Það er af því að þú viðheldur óafvitandi þessum neikvæðu grunnviðhorfum með skekkjum í hugsun. Þú tekur eftir öllu sem er í samræmi við þau og leiðir hjá þér allt sem er í ósamræmið við þau. Við leitumst nefnilega alltaf við að fá staðfestingu á því sem okkur finnst og tökum annað ekki trúanlegt. Ef þú hefur lágt sjálftraust, átt þú örugglega gott með að trúa gagnrýni, en erfitt með að trúa hrósi. Þú trúir gagnrýninni af því að hún er í samræmi við það sem þér finnst en trúir ekki hrósinu af því að það passar ekki við þínar hugmyndir um þig. Ef þú ert gagnrýnd(ur) hugsarðu að þetta sanni hversu slæm, vitlaus eða leiðinleg(ur) þú sért en ef þú færð hrós hugsarðu að viðkomandi meini ekkert með þessu, hann vorkenni þér bara og vilji láta þér líða betur. Þér dettur aldrei í hug að endurskoða þessi neikvæðu grunnviðhorf í ljósi jákvæðra ummæla! Þú hugsar örugglega aldrei sem svo að hrósið kunni að benda til að eitthvað sé athugavert við neikvæða sjálfsmynd þína. Þú hefur örugglega lítið hugsað út í að eitthvað kunni að hafa verið athugavert við þau skilaboð sem þér voru send í bernsku, ekki þig! Að það hafi verið allt í lagi með þig en kannski ekki í lagi með framkomu einhverra þeirra sem í kringum þig voru í bernsku?

Ofangreindur texti er fenginn úr neðangreindri sjálfshjálparbók sem mælt er sérstaklega með:

Sjálfshjálparbók á ensku um lágt sjálfstraust

Fennell, M. (1999). Overcoming low self-esteem. New York: University Press.