Við Kvíðameðferðarstöðina er hægt að fá greiningu á ADHD með skömmum fyrirvara. Vandinn er kortlagður í tveimur viðtölum og farið yfir niðurstöður og skýrsla afhent í þriðja viðtali.

 Í fyrstu tveimur viðtölum aflar sálfræðingur upplýsinga um vandann, leggur fyrir formleg greiningarviðtöl (ADHD-hluti K-SADS og MINI) og leggur fyrir spurningalista sem meta ADHD (t.d. ADHD Rating Scale) og tengd vandkvæði (t.d. kvíða, þunglyndi og persónueinkenni) en útiloka þarf aðrar skýringar á þeim erfiðleikum sem fólk finnur fyrir. Sálfræðingur tekur einnig símaviðtal við nákominn ættingja sem þekkti viðkomandi vel í æsku ef hægt er að koma því við (með leyfi þess sem fer í greininguna) og leggur fyrir hegðunarmatskvarða yfir síma. Alls er greitt fyrir fimm tíma vinnu af hálfu sálfræðings eða 60.000 krónur fyrir greininguna. Það starfar ekki geðlæknir við Kvíðameðferðarstöðina og þurfa þeir sem vilja huga að lyfjameðferð eftir greiningu sjálfir að kanna hvar þeir geti fengið tíma hjá geðlækni. Gott er að huga að slíku tímanlegar þar sem geðlæknar eru umsetnir.
Við Kvíðameðferðarstöðina er haldið reglulega námskeið fyrir fólk með athyglisbrest þar sem kenndar eru leiðir til bættar einbeitingar, skipulagningar og minnistækni. Að öðru leyti liggur sérhæfing sálfræðinga KMS á sviði kvíða.

Panta má tíma í greiningu með því að hringja í síma 534-0110 eða 822-0043 eða senda tölvupóst á kms@kms.is. Mikilvægt er að taka fram að þú óskir eftir greiningu á ADHD þar sem það eru aðeins ákveðnir sálfræðingar stöðvarinnar sem sérhæfa sig í þessum greiningum.

Ert þú með ADHD?

Þeir sem eru með ADHD geta verið með athyglisbrest, ofvirkni eða hvoru tveggja. Athyglisbrestur einkennist af þrálátum einbeitingarerfiðleikum, t.d. að eiga erfitt með að taka eftir því sem sagt er, atriðum í umhverfi eða halda einbeitingu við lestur.  Þessu fylgir einnig gleymska en margir eru iðulega að gleyma hinu og þessu og eyða tíma í leita að hlutum. Fólk er utan við sig og fer gjarnan úr einu í annað í verkefnum. Fólk getur fengið mikinn áhuga á hlutum og hefur þá einbeitingu en er gjarnt á að missa áhugann og lýkur þá oft ekki við það sem byrjað er á. Algengt er að fólk eigi erfitt með að áætla hluti í tíma er gjarnan of seint.

Ofvirkni einkennist aftur á móti af eirðarleysi, erfiðleikum með að slaka á og sitja kyrr, hvatvísi, málgleði, tilhneigingu til að grípa fram í, vera hávaðasamur og mikið á ferðinni eða á iði.

Fólk getur haft mismikil einkenni athyglisbrests og/eða ofvirkni og er greining ekki gerð nema einkennin séu verulega að há fólki. Hálfur batinn felst í að fá greiningu en auk þess getur það hjálpað fólki mjög að fá ráðgjöf til að fást við einkennin, hitta fólk í sömu sporum og síðast en ekki síst getur lyfjameðferð breytt lífi fólks.

Þegar fólk nær að láta ADHD trufla líf sitt sem minnst geta þessi einkenni unnið með fólki, en ADHD fylgir oft framkvæmdagleði og kraftur, hugrekki og sköpunargáfa.