Þegar fólk kemur til Kvíðameðferðarstöðvarinnar í fyrsta sinn er það beðið að mæta hálftíma fyrr til að fylla út spurningalista.  Á þessum lista er fyrst beðið um nokkrar bakgrunnsspurningar til dæmis nafn þitt, kennitölu og símanúmer. Þessar upplýsingar eru gagnlegar ef við skyldum vilja ná í þig, til dæmis til að bjóða þér viðtal eða þátttöku í hópmeðferð. Á eftir bakgrunnsspurningunum fer meðferðarsamningur sem þú og sálfræðingur þinn gerið með ykkur um samstarf ykkar. Að lokum má finna spurningar  sem auðvelda þér og þeim sem þú hittir að átta sig betur á vanda þínum. Mætt er með þennan spurningalista í viðtalið til sálfræðings sem stuðlar að því að viðtalið nýtist sem best. Viðtalið hjá sálfræðingnum tekur 50-60 mínútur en þar er vandi hver og eins kortlagður vel og álit sálfræðingsins fengið. Í þessu viðtali mun viðkomandi sálfræðingur ráðleggja þér hvað hann telur best að gera en það getur falist í áframhaldandi viðtölum hjá honum, öðrum fagmanni sem sérhæfður er í vandanum eða hópmeðferð svo dæmi séu nefnd.

Sálfræðingar stöðvarinnar hafa þagnarskyldu og er farið er með allar upplýsingar sem þú veitir sem trúnaðarupplýsingar og þær varðveittar sem slíkar. Þú þarft ekki að veita neinar upplýsingar sem þú ekki vilt í greiningarviðtali, en því ítarlegri upplýsingar sem fást um það sem er að hrjá þig, því auðveldara er að aðstoða þig við að ná tökum á vandanum. Algengt er að fólk kvíði fyrsta viðtali og finnist erfitt að greina ókunnugri manneskju frá erfiðleikum sínum. Þetta er eðlilegt og oftast léttir fólki þegar það er búið að koma. Skyldir þú einhverra hluta vegna ekki komast í greiningarviðtalið, hvetjum við þig til að láta vita í síma 534-0110, 822-0043 eða með því að senda tölvupóst á kms@kms.is með sólarhrings fyrirvara. Að öðrum kosti greiðir fólk andvirði hálfs viðtalsins.

Hér að neðan má sjá meðferðarsamning sem sálfræðingar og skjólstæðingar KMS gera með sér í upphafi meðferðar en samningurinn lýtur að trúnaði, ábyrgð, mætingu og greiðslufyrirkomulagi.

Meðferðarsamningur

Hér má sjá þær siðareglur sem sálfræðingar Kvíðameðferðarstöðvarinnar, sem og aðrir sálfræðingar, lúta.

Siðareglur sálfræðinga