Hvernig meðferð er veitt við Kvíðameðferðarstöðina?

Við Kvíðameðferðarstöðina er veitt hugræn atferlismeðferð, en þetta meðferðarform hefur farið ört vaxandi á undanförnum áratugum og er orðið eitt helsta meðferðarformið á Vesturlöndum. Hugræn atferlismeðferð er í raun yfirheiti yfir fjölda aðferða sem borið hafa góðan árangur við ýmiss konar vanda og hefur árangurinn reynst sérlega góður við meðhöndlun kvíðaraskana. Hugræn atferlismeðferð sameinar bæði aðferðir hugrænnar meðferðar (cognitive therapy) og atferlismeðferðar (behavior therapy). Í hugrænni meðferð fær fólk aðstoð við að breyta óhjálplegu hugarfari þannig að líðanin fari batnandi og fólk geti gert það sem það vill. Í atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að breyta atferli sínu, til dæmis takast smátt og smátt á við það sem það kvíðir, en við það fer líðanin smám saman batnandi og fólk öðlast meiri trú á getu sinni. Sérstök áhersla er lögð á atferlismeðferðarþáttinn við  Kvíðameðferðarstöðina.

Eiginleikar hugrænnar atferlismeðferðar

Um er að ræða meðferð þar sem skjólstæðingur og sálfræðingur vinna saman í ákveðinn tíma; korleggja þann vanda sem leitað er lausna við, og leita sameiginlegra leiða til að leysa. Vandinn er oftast, að einhverju leyti, kortlagður með matstækjum, til dæmis spurningalistum sem meta ýmsa þætti kvíða. Sett eru skýr markmið í upphafi meðferðar og unnið markvisst að því að ná þeim, m.a. með heimaverkefnum sem skjólstæðingur vinnur milli tíma. Heimaverkefni geta m.a. falist í því að lesa tiltekið lesefni fyrir næsta tíma, skrá hugsanir eða atferli, eða takast á við eitthvað sem er dálítið kvíðvænlegt. Þessi heimaverkefni eru ákveðin í sameiningu og ráðast af því hvert fólk vill stefna og hvað það treystir sér til að gera. Í upphafi hvers tíma er yfirleitt farið í hvað viðkomandi hefur tekist á við síðan síðast og hann inntur eftir því hvað hann vilji takast á við þar til næst. Því meiri vinnu sem fólk er tilbúið að leggja í heimaverkefnin, því meiri árangri má búast við. Með reglulegu millibili í meðferð er skoðað hvernig meðferðinni vegnar, og hvernig gangi að ná markmiðum. Þetta er meðal annars gert með fyrirlögn matstækja.

Hér má sjá ítarlega grein eftir Frank Dattilio og Eirík Örn Arnarson um útbreiðslu og mikilvægi hugrænnar atferlismeðferðar.

Kostir hópmeðferðar

Meðferð við Kvíðameðferðarstöðina er oftast veitt í hóp þótt einstaklingsviðtöl komi í sumum tilvikum til greina. Kostir hópmeðferðar eru þeir að þátttakendur geta lært hver af öðrum og hvatt hvern annan til að takast á við það sem þeir óttast, það er oft skemmtilegt í hópunum og unnt að setja á svið ýmsar æfingar sem erfiðara er að koma við í einstaklingsviðtölum. Þegar um félagskvíða er að ræða hefur það eitt að mæta í hópinn meðferðarlegt gildi, þar sem kvíðinn fer smám saman minnkandi eftir því sem fólk er lengur í hópnum. Fólk á hins vegar oft erfitt með að hafa sig í að mæta í fyrstu skiptin, eins og eðlilegt er, en mæti það í fyrstu skiptin þrátt fyrir kvíðann er það komið yfir erfiðasta hjallann og mun kvíðinn eftir það smám saman fara minnkandi. Hópmeðferðinni svipar að miklu leyti til kennslu í þeim skilningi að veitt er talsverð fræðsla um kvíða í fyrstu tímunum og aðferðir kenndar, og síðar æfðar, til að ná tökum á kvíðanum. Hópmeðferð hjá sálfræðingum er hlutfallslega ódýrari en einstaklingsviðtöl og getur borið jafngóðan, og stundum betri, árangur en einstaklingsmeðferð.

Fyrirkomulag hópmeðferðar

Hópmeðferðin stendur að jafnaði yfir í 6 til 10 vikur eftir því hvaða kvíðaröskun á í hlut. Hópurinn hittist oftast vikulega í tvo til tvo og hálfan tíma í senn, og er kaffipása um miðbik tímans. Yfirleitt veita sálfræðingar fræðsluerindi um einhverja þætti kvíða og kvíðastjórnunar í fyrri tímanum og eru æfingar í þeim seinni. Æfingarnar eru mismunandi og fara eftir því hvers eðlis kvíðinn er. Reynt er að raða æfingum eftir erfiðleikastigi og er byrjað á æfingum sem vekja tiltölulega lítinn kvíða, og æfingarnar smám saman þyngdar eftir því sem fólk verður betra af kvíðanum. Með þessu móti verða æfingarnar viðráðanlegar og eru þátttakendur aldrei neyddir til að gera eitthvað sem þeir ekki vilja. Þeir eru hins vegar hvattir til að takast á við eins erfiðar æfingar og þeir treysta sér til. Því meiri kvíða sem fólk er tilbúið að leggja á sig við æfingarnar, þeim mun meiri árangri skila þær. Þess ber að geta að það vekur ávallt kvíða í fyrstu þegar fólk er að takast á við það sem það óttast, en þrauki það í meðferðinni þrátt fyrir kvíða, verður það smám saman betra af kvíðanum.

Það er misjafnt hvað fólk þarf langan tíma í hópmeðferð og ræðst það m.a. af því hve kvíðinn er mikill og hversu lengi hann hefur verið til staðar. Fyrir þá sem þurfa getur komið til greina að halda áfram að vinna í sér í einstaklingsviðtölum að lokinni hópmeðferð. Áhersla er lögð á veita þá meðferð sem hver og einn þarf á að halda, eins lengi og til þarf til að ná tilætluðum árangri.