Að nýju námskeið við KMS og Sálarafl er átta vikna námskeið á dagskrá 28. febrúar 2012 fyrir fólk sem vill vinna markvisst að því að komast í gott samband!
Á námskeiðinu er farið í hvar og hvernig kynnast megi öðrum, samræðulist, líkamstjáningu og samskipti kynjanna. Þá er einnig farið yfir daður, mörk, kynlíf og fleira. Unnið er að auknu sjálfsöryggi og frumkvæði þátttakenda. Þátttakendur fá aðstoð við að átta sig á hvað þeir vilja og þurfa í fari maka og hvernig þeir geti borið sig eftir því. Farið er í öfluga samskiptatækni, meðal annars leiðir til að beita virkri hlustun, öðlast aukna nánd og leysa ágreining. Þessar aðferðir eru æfðar meðal annars hlutverkjaleikjum en jafnframt fá þátttakendur lesefni og heimaverkefni milli tíma til að hámarka árangur af námskeiðinu. Námskeið er byggt á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar sem gefist hefur sérlega vel til að bæta líðan og samskipti, efla sjálfstraust og lífsgæði.
Námskeiðið kostar 60.000 og er greitt í fyrsta hópmeðferðartíma. Innifalið í námskeiðsverði eru 16 klukkustundir af fræðslu og þjálfun auk eftirfylgdartíma þremur mánuðum síðar. Undanfari námskeiðs er 45 mínútna sálfræðiviðtal hjá stjórnendum námskeiðsins sem kostar 9.500 og er ekki innifalið í námskeiðsverði. Þetta viðtal er mikilvægt til að unnt sé að kortleggja hvernig landið liggur hjá hverjum og einum og ganga úr skugga um að námskeiðið geti komið viðkomandi að gagni.
Athugið að möguleiki kann að vera að fá námskeiðið niðurgreitt hjá stéttarfélögum.
Stjórnendur námskeiðs eru dr. Gyða Eyjólfsdóttir (www.salarafl.is) og Sóley D. Davíðsdóttir sálfræðingar.
Námskeiðið hefst 28. febrúar 2012 og verður á þriðjudagskvöldum frá 20-22.
Þátttakendafjöldi er takmarkaður og er skráning þegar hafin á kms@kms.is og salarafl@salarafl.is
Hér að neðan má sjá mat síðasta hóps á námskeiðinu:
Þátttakendur gáfu námskeiðinu að meðaltali 9,1 í einkunn. Skráð eru orðrétt ummæli þátttakenda hér fyrir neðan, með leyfi þeirra, en unnið verður sérstaklega að því að koma til móts við þessi ummæli og tillögur að úrbótum fyrir næsta námskeið.
“Þetta hefur komið mér af stað til að þora að fara út á markaðinn, gefið mér meira sjálfstraust og ég á auðveldara með að setja mörk. Líka gott að vita að það eru fleiri með sömu hugsanir og ég í þessum efnum. Æfingarnar sem við gerðum tvö saman skiluðu mér miklu”.
“Ég fékk mikið út úr þessi námskeiði, hver kafli hreif mig mjög, ég hef breytt ýmsu í mínu fari, námskeiðið hefur gefið mér aukið sjálfstraust og þor og ég nota hugsanaskrána daglega”.
“Hefur hjálpað mér mikið, hegðun, atriði varðandi hitt kynið, hefur einnig gefið mér meira sjálfstraust og minnkað sjálfsgagnrýni”
“Hefði mátt fjalla um höfnun og þess þáttar. Fannst stundum (ekki oft) svolítið miðað við kvenmenn. Námskeið sjálft og efnistök voru mjög góð”.
“Aukið sjálfsöryggi, aukinn skilningur á samböndum, leiðir til að finna maka, skýr markmið”.
“Mjög gagnleg atriði sem eiga eftir að nýtast mér í framtíðinni. Opnaði augu mín fyrir ýmsu sem ég hafði ekki áttað mig á eins og að skrifa niður eiginleika þess sem ég er að leita að”.
“Námskeiðið hefur opnað á að vera aktív í minni makaleit. Einnig vakið skilning minn á að þetta byggist fyrst og fremst á góðu sjálfstrausti og á að taka þessa hluti ekki alvarlega heldur taka þá á léttu nótunum. Best var að læra að lifa skemmtilegu og innihaldsríku lífi áður en maður hittir makann. Allt efnið var gagnlegt, ég vil sjá meiri fróðleik og aðgerðir varðandi að fara út á lífið. Ég held að fólk sé hrætt við þann þátt”.
“Líkamstjáning, gott að fá lesefni heim, fínt að þetta er lokaður hópur. Kannski mætti hafa fleiri tíma. Mætti vera meira myndefni”.
“Opnaði huga minn gagnvart maka. Mikilvægi þess að eiga samferðamann. Daður fékk nýtt gildi, er skemmtileg samskiptaleið milli fólks, bendir mér á hvar ég þarf að vinna betur með sjálfa mig til að líða betur í samskiptum -bæta samskipti og virka hlustun, draga úr bælingu. Allt gagnlegt”