Þegar fólk leitar sér aðstoðar við kvíða hefur það stundum á orði að það vilji „losna við” kvíðann. Það er skiljanlegt þar sem kvíði getur verið afskaplega hamlandi og lýjandi til lengdar. Hins vegar er það hvorki raunhæft né æskilegt markmið að verða kvíðalaus! Án kvíða er hætt við að fólk yrði óhóflega kærulaust og nennti vart til vinnu, passaði sig ekki í umferðinni eða sofnaði í prófum. Kvíði upp að vissu marki bætir frammistöðu fólks, t.d. í prófum, íþróttum og atvinnuviðtölum. Hann stuðlar að því að fólk vandar sig og undirbýr sig vel undir erfiðar aðstæður, til dæmis les vel undir próf. Kvíðatilfinningin er nátengd samvisku og aftrar fólki oft frá því að gera eitthvað sem gæti valdið því sjálfu eða öðrum tjóni.
Kvíðaviðbragðinu (fight-flight response) er ætlað að ræsast í öllum þeim aðstæðum þar sem fólk gæti verið í hættu statt, til að fá fólk til að flýja af hólmi eða berjast. Hæfileikinn að muna og ímynda sér hluti, geta séð fyrir sér ýmsar hættur og að þurfa ekki brenna sig aftur og aftur á sömu hættunum hefur stuðlað að afkomu mannsins. Án kvíðaviðbragðsins er hætt við að fólk hefði dottið fram að björgum, lokast inni eða orðið villidýrum að bráð. Kvíðakerfi mannsins er það öflugt að það ræsist nánast ósjálfrátt í vissum aðstæðum: Andspænis villidýrum, skordýrum, slöngum, reiðum andlitum, lokuðum rýmum eða háum hæðum. Mönnum er óttinn við þessar aðstæður í blóð borinn og þarf litla reynslu af ofangreindu til að fælni myndist. Það er hins vegar mun erfiðara að þróa með sér fælni fyrir ljósastaurum eða pottablómum, þótt dæmi séu raunar um fælni að því tagi! Það sem er svo merkilegt við kvíðaviðbragðið, er að við þurfum í raun ekki annað en að hugsa að við séum í hættu stödd til að kvíðaviðbragðið ræsist. Heilinn gerir engan greinarmun á hvers eðlis hættan kunni að vera, hvort við teljum hættu á að verða villidýri að bráð, falla á prófi eða falla í áliti annarra. Þetta eru hins vegar góðar fréttir því hugsunina má læra að endurskoða.
Tilgangur kvíðaeinkenna
Kvíði lýsir sér í fjölmörgum líkamlegum einkennum, sem geta orðið það sterk að fólk dregur þá skiljanlegu ályktun, að það sé líkamlega veikt. Algeng líkamleg einkenni kvíða eru ör eða þungur hjartsláttur, mæði, köfnunartilfinning, munnþurrkur, spennt raddbönd, vöðvaspenna eða slappleiki, svimi, sviti, roði, doði, ógleði, köfnunartilfinning, tíð þvaglát, niðurgangur, lystarleysi, einbeitingarerfiðleikar, sjóntruflanir og óraunveruleikatilfinning. Það er talsvert misjafnt hvaða einkennum fólk finnur mest fyrir og geta einkennin verið viðvarandi eða komið í köstum sem nefnast kvíða- eða felmtursköst.
Kvíðaeinkennin kunna að virðast mjög ógnandi en eru í raun meinlaus, og það sem merkilegast er, er að hvert og eitt einasta þessara einkenna hefur tilgang og er ætlað að stuðla að afkomu okkar. Lestu útskýringarnar á því sem gerist í líkama okkar þegar við erum kvíðin og hvaða aukaverkunum við finnum fyrir í kjölfarið:
- Við öndum hraðar og þá eykst magn súrefnis sem berst til vöðvanna sem gerir það að verkum að við erum betur í stakk búin til þess að gera árás eða flýja.
Aukaverkun:
è Hraður andardráttur getur valdið því að við fáum svimatilfinningu, verki fyrir brjósti eða andþyngsli.
- Hjartað slær hraðar þannig að blóðið dælist hraðar um líkamann, einnig í þeim tilgangi að veita vöðvunum það sem þeir þurfa til þess að flýja eða leggja til árásar.
Aukaverkun:
è Við verðum óþægilega meðvituð um hjartsláttinn, skjálfta o.þ.h.
- Blóðið streymir til vöðvanna í handleggjum og fótum, en það eru þeir vöðvar sem við þurfum helst á að halda í varnarskyni, hvort sem við flýjum eða leggjum til árásar. Blóðið streymir í burtu frá öðrum svæðum líkamans sem skipta minna máli við slíkar aðstæður eins og t.d. frá húðinni, fingrum og tám.
Aukaverkun:
è Þetta getur leitt til að þess að við finnum fyrir doða, seiðingi eða kulda á þeim svæðum þar sem blóðflæðið er minna.
- Vöðvar okkar spennast svo við séum reiðubúin að leggja til atlögu ef þörf er á.
Aukaverkun:
è Við upplifum okkur spennt og stundum leiðir spennan til óþæginda, verkja eða skjálfta.
- Við svitnum meira vegna þess að líkaminn hitnar þegar við berjumst eða flýjum og svitinn kælir líkamann.
Aukaverkun:
è Þetta leiðir til þess að okkur finnst við þvöl og sveitt.
- Það hægist á meltingu og framleiðslu munnvatns vegna þess að það er sóun á orku sem þarf að nýta annars staðar.
Aukaverkun:
è Við finnum fyrir ógleði eða flökurleika og verðum þurr í munninum.
- Athygli okkar beinist að hugsanlegri hættu svo við verðum betur í stakk búin til þess að bregðast við hættunni.
Aukaverkun:
è Okkur finnst við vera á nálum, verðum kvíðin og okkur reynist erfitt að einbeita okkur að öðrum hlutum.
- Sjáöldrin víkka og hleypa inn eins mikilli birtu og mögulegt er svo við eigum hægara um vik að greina eða sjá mögulega hættu í umhverfinu.
Aukaverkun:
è Við getum orðið viðkvæm fyrir ljósi eða fengið sjóntruflanir.
Áhrif kvíða
Fólki hættir til þess í daglegu tali að gera lítið úr kvíða, segja eitthvað eins og „þetta er bara kvíði, hvað, heldur þú að þú getir ekki gert þetta?“. Kvíði getur hins vegar orðið ótrúlega þrálátur, jafnvel varað alla ævi, sé ekki unnið að því sérstaklega að uppræta hann. Kvíði getur skert lífsgæði fólks verulega og takmarkað líf fólks, gert það að verkum að það getur ekki gert nema hluta af því sem það langar til. Sumir láta sig kannski hafa það að gera hlutina þrátt fyrir kvíða en ná þá oft ekki að njóta þeirra. Aðrir hafa svo miklar áhyggjur af hinu og þessu til dæmis velferð ættingja, að þeir ná jafnvel ekki að njóta samvista við ættingjana sem þeir hafa svo miklar áhyggjur af! Það getur jafnframt farið svo mikill tími og orka í að hafa áhyggjur af framtíðinni að enginn tími gefst til að velta því fyrir sér hvað skipti máli í lífinu! Kvíði getur haft áhrif á öll svið lífsins, menntun og framgöngu í starfi, tengsl við aðra og hvernig frístundum er varið. Hann getur haft áhrif á nánasta hverja einustu ákvarðanatöku yfir daginn, t.d. hvort manneskja gengur upp á 8. hæð eða tekur lyftuna, hvort farið er út með vinum að kvöldi til eða setið heima, hvort haldið er áfram eða hætt í skóla eða farið í ræktina eður ei. Þá getur langvarandi kvíði einnig leitt til þunglyndis og misnotkunar vímuefna. Það er því til mikils að vinna náist að halda kvíðaeinkennunum í skefjum.