Námskvíði

Flestir námsmenn finna fyrir einhverjum kvíða og óöryggi í kringum próf og mikilvæg verkefni. Hæfilegur kvíði getur verið hvetjandi og gagnlegur þegar mikið liggur við. Þegar kvíðinn er aftur á móti orðinn þrálátur getur hann haft hamlandi áhrif á frammistöðu í mikilvægum verkefnum. Erlendar rannsóknir benda til að 20% námsmanna á aldrinum 18-20 ára finni fyrir hamlandi kvíða.

Mynd af manneskju sem glímir við námskvíða.Áður fyrr var gengið út frá því að námskvíða mætti rekja til lakrar námstækni. Nýlegar rannsóknir benda til að svo sé ekki. Oft liggur vandinn í slæmu sjálfstrausti. Ef námsmaðurinn hefur ekki trú á að hann geti lært eða staðist þær kröfur sem gerðar eru í náminu skiptir nefnilega engu máli hversu góða námstækni hann hefur tileinkað sér. Góð námstækni er samt sem áður mikilvæg en til að hún nýtist er mikilvægt að hlúa vel að sjálfstraustinu.

Umræða um sjálfstraust í samfélaginu snýr gjarnan að einhverskonar betrumbótum. Markmiðið er gjarnan að verða betri að einhverju leyti eða ,,að verða besta útgáfan af sjálfum sér”, hvað sem það nú þýðir. En sjálfstraust okkar byggist ekki á því sem við gerum heldur hvaða viðhorf eða skoðun við höfum á okkur sjálfum og því sem við gerum. Það er því hægt að skara fram úr á öllum sviðum lífsins án þess að hafa gott sjálfstraust. Eins er hægt að vera meðaljón en hafa afbragðs sjálfstraust.

Til þess að bæta sjálfstraustið þarf þar af leiðandi að skoða viðhorf sem maður hefur til sjálfs sín og þess sem maður gerir og hvernig það hefur áhrif líðan og hegðun. Birtingarmyndir kvíða og óöryggis eru margvíslegar. Þær algengustu eru: Hamlandi fullkomnunarárátta þar sem miklum tíma og orku er eytt í námið en nemandinn er aldrei ánægður með árangurinn, frestun þar sem nemandinn ýtir verkefnum á undan sér og forðun sem veldur því að nemandinn hættir í áföngum eða sleppir því að mæta í próf.

Nemendur með námskvíða geta verið á öllum skalanum þegar kemur að frammistöðu. Allt frá toppnemendum til meðaljóna. Allir eiga það þó sameiginlegt að kvíði og stundum skortur á sjálfsöryggi veldur því að þeir ná ekki að gera sitt besta og finna fyrir mikilli streitu og vanlíðan. Í mörgum tilvikum kemur þetta í veg fyrir að að þeir njóti sín í skólanum. Og jafnvel þegar gengur vel í náminu ná margir ekki að njóta árangursins heldur læðast sífellt að þeim efasemdir um eigin getu og hvernig næsta verkefni muni ganga. Þetta getur verið mjög lýjandi og getur valdið vanlíðan sem hefur ekki aðeins áhrif á líðan í skólanum heldur einnig heima fyrir.

Rannsóknir sýna að aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) ásamt aðferðum sáttar (acceptance) og árvekni (mindfulness) hafa reynst vel í meðferð við kvíða og lágu sjálfstrausti. Við Kvíðameðferðarstöðina er reglulega boðið upp á námskeið þar sem kenndar eru leiðir til að efla sjálfstraust og takast á við kvíða í námi.

Ef þú telur þig vera kljást við námskvíða, hafðu þá samband við okkur hér.