Flugfælni er mjög mikill eða óraunhæfur ótti við aðstæður sem tengjast flugferðum sem verður oft til þess að fólk forðast að fljúga. Að auki verður óttinn að valda fólki verulegri vanlíðan eða skerðingu í lífsgæðum til þess að teljast fælni. Sumir með flugfælni forðast flugferðir alfarið á meðan aðrir fljúga ef þeir nauðsynlega þurfa en eru þá óttaslegnir alla flugferðina. Fólk sem þjáist af flugfælni en flýgur samt þegar þörf er á hefur tilhneigingu til þess að nota ýmar aðferðir til þess að minnka ónotin á meðan á flugi stendur, eins og að dreifa huganum (t.d. með tónlist eða lestri), taka inn róandi lyf, drekka áfengi, eða að fljúga aðeins undir ákveðnum skilyrðum (t.d. í ákveðnum tegundum af flugvélum, á ákveðnum árstímum).
Flestir sem eru flugfælnir kvíða því að flugvélin gæti brotlent eða að flugvélinni verði rænt af flugræningjum. Í sumum tilfellum getur ótti við flug þó tengst fremur innilokunarkennd eða ótta við að fá kvíðakast og eru þá oftast fleiri aðstæður en flug sem fólk óttast. Fjöldi þátta hafa svo áhrif á hversu sterkur óttinn er hjá hverjum og einum. Þættir eins og slæmt veður, ókyrrð í lofti eða óvenjuleg hljóð í flugvélinni auka oft á óttann hjá fólki. Á sama hátt geta þættir eins og lengd flugs og ákveðnir hlutar flugsins (t.d. lofttaka eða lending) haft áhrif á styrk óttans. Það eitt að hugsa um að vera staddur á flugvelli eða á leið inn í flugvél getur vakið ótta hjá sumum.
Þrátt fyrir að reyna að forðast flug fram í lengstu lög, fljúga margir með flugfælni stöku sinnum. Flugferðir halda áfram að vera þessum einstakingum mjög óþægileg, sérstaklega þegar einhverjir óvæntir atburðir eiga sér stað eins og tafir eða ókyrrð í lofti. Þessar ferðir leiða yfirleitt til mikilla líkamlegra óþæginda, þar með talið kvíðakasta (t.d. aukinn hjartsláttur, oföndun, svimi, skjálfti, ógleði, sviti). Þessi líkamlegu einkenni geta orðið til þess að fólk óttist að missa stjórn á sér, kasta upp, falla í yfirlið, verða sturlað, verða sér til skammar eða jafnvel að það komi til með að deyja úr hjartaáfalli. Að auki finna flugfælnir gjarnan fyrir sterkri þörf til þess að flýja úr aðstæðunum, sem getur orðið að nýju áhyggjuefni (sjá sjálfan sig reyna að komast út úr flugvélinni uppi í háloftunum).