Innilokunarkennd er mikill eða óraunhæfur ótti við að vera í aðstæðum þar sem eitthvað þrengir að manni eða maður getur lokast inni. Innilokunarkenndin verður yfirleitt til þess að fólk forðast aðstæður af þessum toga, og veldur fólki þjáningu eða röskun á lífi þess. Dæmigerðar aðstæður sem fólk með innilokunarkennd forðast eru að sitja í aftursæti í þriggja dyra bíl, fara í lyftur, lítil herbergi, hellar, vera með mótorhjólahjálm, vera inni í læstu eða lokuðu herbergi (t.d. á salerni), fara í sturtu eða gufubað, ferðast í gegnum jarðgöng, vera faðmað, vera inni í skápum, á háaloftum eða í kjöllurum, fara í segulómunartæki, gluggalaus rými, fljúga, liggja í rúmi með sæng yfir höfuðið. Ekki forðast allir með innilokunarkennd sömu aðstæðurnar. Þess ber þó að geta að fólk getur forðast ofangreindar aðstæður af öðrum sökum en innilokunarkennd. Til dæmis forðast fólk með ofsakvíða (panic disorder) lokuð rými af ótta við að fá kvíðakast, auk annarra aðstæðna þar sem það gæti átt von á að fá kvíðakast. Ólíkt fólki með ofsakvíða greina einstaklingar með innilokunarkennd frá ótta við tilfinninguna um að vera innilokaðir, þvingaðir eða komast hvergi úr aðstæðunum. Að auki greina einstaklingar með innilokunarkennd oft frá köfnunartilfinningu þegar þeir eru staðsettir í lokuðum rýmum.
Innilokunarkennd er frekar algeng. Rannsóknir hafa sýnt að um 12% almennings finnur fyrir mikilli innilokunarkennd og um 4% það mikilli að það flokkast sem fælni. Fleiri konur en karlar greina frá fælni tengdri því að lokast inni. Þessi tegund af fælni virðist þróast tiltölulega seint á lífsleiðinni miðað við aðrar tegundir fælni. Að meðaltali byrjar fólk að finna fyrir innilokunarkennd um 20 ára aldur, þótt hún geti hafist á hvaða aldri sem er.