Ofsakvíði

Hér að neðan verður einkennum ofsakvíða lýst en neðst í skjalinu má finna meðferðarhandbók við ofsakvíða þar sem finna má leiðbeiningar um hvernig megi ná tökum á vandanum.

Það er óþægilegt að verða mjög hræddur eða felmtri sleginn. Í vissum aðstæðum er það eðlilegt, ekki síst þegar fólk er í hættu statt. Sumir fara aftur á móti að fá endurtekin og ofsafengin óttaköst sem ná námarki sínu innan nokkurra mínútna, þar sem fólk finnur fyrir sterkum líkamlegum einkennum að tilefnislausu. Fólk verður skiljanlega mjög hrætt við þessa upplifun og hefur áhyggjur af að eitthvað alvarlegt sé að. Það fer að óttast frekari köst og jafnvel forðast aðstæður eða athafnir þar sem frekari köst gætu gert vart við sig (slík forðun nefnist víðáttufælni). Þessi vandi nefnist ofsakvíði, öðru nafni felmtursröskun. Í þessum köstum gera a.m.k. fjögur af eftirfarandi einkennum vart við sig: Hjartsláttur, svimi, sviti, skjálfti, köfnunartilfinning, andnauð, óraunveruleikatilfinning og ótti við að eitthvað hræðilegt sé að gerast eins og yfirlið, köfnun, hjartaáfall, geðveiki eða dauði. Allt að 10% fólks fær eitt eða fleiri kvíðaköst á ævinni en um það bil 3,5 % fólks þróar með sér ofsakvíða, það er að segja óttann við frekari kvíðaköst (eiginlega „ótta við óttann”).Mynd af menneskju sem glímir við ofsakvíða.

Glímir þú við ofsakvíða?

Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú sért haldinn ofsakvíða, geta eftirfarandi spurningar komið þér að gagni. Svarir þú þeim játandi getur verið að þú sért haldinn vandanum, en úr því fæst ekki skorið nema með mati fagmanns.

Hefur þú verið að fá endurtekin köst, sem ná hámarki sínu á innan við tíu mínútum, þar sem þú hefur fundið fyrir að minnsta kosti fjórum af eftirtöldum einkennum?
1. Örum hjartslætti

2. Svita

3. Skjálfta

4. Andnauð

5. Köfnunartilfinningu

6. Verkjum eða óþægindum fyrir brjósti

7. Ógleði eða óþægindum í kviðarholi

8. Svima, óstöðugleika eða yfirliðstilfinningu

9. Óraunveruleikatilfinningu

10. Ótta við að missa stjórn eða fara yfir um

11. Ótta við að deyja

12. Doða eða fiðringi

13. Hitakófum eða kuldahrolli

Já □ Nei □

Hefur þú eftir að minnsta kosti eitt kastanna fundið fyrir að minnsta kosti einu af eftirfarandi í meira en mánuð:

1. Viðvarandi áhyggjur af að fá annað kast

2. Áhyggjur af hvað kastið merki eða kunni að hafa í för með sér (til dæmis missa stjórn á þér, fá hjartaáfall, missa vitið).

3. Þú ert farinn að haga þér öðru vísi í tengslum við köstin

Já □ Nei □

Til þess að um ofsakvíða sé að ræða þarft þú einnig að svara eftirfarandi spurningum neitandi:

Kvíðaköstin eru ekki bein afleiðing af neyslu lyfja, vímuefna eða líkamlegum sjúkdómi

Já □ Nei □

Köstin skýrast ekki betur af annarri geðröskun, til dæmis félagsfælni (þar sem köstin takmarkast við félagslegar aðstæður), afmarkaða fælni (þar sem köstin tengjast því að vera útsettur fyrir það sem maður óttast, til dæmis kóngulær), þráhyggju og áráttu (til dæmis að upplifa sig hafa verið útsettan fyrir mengun), áfallastreituröskun (til dæmis útsettur fyrir eitthvað sem minnir á tiltekið áfall) eða aðskilnaðarkvíða (vera fjarri nátengdum ættingjum).

Já □ Nei □

Hugræn atferlismeðferð við ofsakvíða

Hugræn atferlismeðferð ber sérlega góðan árangur við ofsakvíða en samkvæmt hugrænni kenningu stafar vandinn af því að meinlaus líkamleg einkenni eru túlkuð á þann veg að eitthvað alvarlegt sé að. Samskil verður milli neikvæðra hugsana og líkamlegra einkenna þannig að neikvæðar hugsanir, t.d. ,,ég er að fá hjartaáfall” espa upp líkamlegu einkennin. Þá fer fólk að fylgjast sérstaklega með líkamanum og taka eftir öllum merkjum um að kvíðakast gæti verið á leiðinni. Dæmi um einkenni sem fólk gæti farið að hlusta eftir eru eilitlar breytingar á hjartslætti. Við það að hlusta eftir slíkum breytingum, sem eilíflega eiga sér stað í líkamanum, fer fólk að taka betur eftir þeim og túlka á versta veg, sem hrint getur af stað kvíðakasti.
Þess ber að geta að ofangreind einkenni eru eðlilegur hluti af meðfæddu neyðarviðbragði líkamans sem fer í gang þegar við metum að við séum í hættu stödd (stundum er nóg að við hugsum að eitthvað slæmt geti gerst eins og að við gætum fallið á prófi). Þetta viðbragð hefur stuðlað að afkomu mannsins í áranna rás, gert honum kleift að berjast fyrir lífi sínu eða taka til fótanna þegar þörf var á. Ofangreind einkenni leiða hvorki til yfirliðs (þar sem blóðþrýstingur hækkar í kvíðakasti en fellur við yfirlið), dauða (þá væri mannveran löngu útdauð) né geðveiki (sturlunareinkenni eru af öðrum toga en kvíðaeinkenni).

Lesefni á íslensku um ofsakvíða

Hér má finna Meðferðarhandbók við ofsakvíða3

Sóley D. Davíðsdóttir (2014). Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum (kafli um ofsakvíða). Reykjavík: Edda útgáfa.

Íslenskur þáttur um ofsakvíða

Í þættinum Fólk með Sirrý var nýverið umfjöllun um ofsakvíða og meðhöndlun hans og segir stúlka sögu sína sem sigraðist á vandanum og tekin viðtöl við sálfræðinga KMS.  Hér má finna þáttinn: Þáttur um ofsakvíða

Lesefni á ensku um ofsakvíða

Antony, M.M., & McCabe, R.E. (2004). 10 simple solutions to panic: How to overcome panic attacks, calm physical symptoms, and reclaim your life. Oakland, CA: New Harbinger Publications.
Craske, M.G., & Barlow, D.H. (2000). Mastery of your anxiety and panic, third edition (MAP 3) (client workbook and client workbook for agoraphobia). Boulder, CO: Graywind Publications, Inc.

Hér má sjá leiðbeiningar um greiningu og meðferð frá NICE, stofnun á vegum breska heilbrigðisráðuneytisins

Ef þú telur þig glíma við ofsakvíða hafðu þá samband við okkur hér.