Tannlæknafælni er mikill eða óraunhæfur ótti við að fara til tannlæknis. Tannlæknafælnin verður yfirleitt til þess að fólk forðast heimsóknir til tannlækna og frestar nauðsynlegum tannviðgerðum sem gerir það að verkum að ástand tanna getur verið mjög slæmt, og veldur fólki þjáningu eða röskun á lífi þess. Töluvert ber á tímaafpöntunum hjá þeim sem þjást af tannlæknafælni. Þess ber þó að geta að fólk getur forðast ofangreindar aðstæður af öðrum sökum en tannlæknafælni. Til dæmis getur fólk með ofsakvíða (panic disorder) átt erfitt með að fara til tannlæknis af ótta við að fá kvíðakast í tannlæknastólnum.
Hversu algeng er tannlæknafælni?
Kvíði tengdur tannlæknaheimsóknum er mjög algengur og greina um 40% fólks frá óþægindum í tengslum við að fara til tannlækna. Rannsóknir benda til að á bilinu 2-7% fólks finni fyrir svo miklum kvíða að viðkomandi teljist vera með fælni. Tannlæknafælni er algengari meðal kvenna en karla.