Við Kvíðameðferðarstöðina (KMS) starfar nú Magnús Jóhannsson sálfræðingur sem hefur áratuga langa reynslu á sviði taugasálfræði og hefur eftirfarandi þjónusta því bæst við á greiningarsviði KMS:
- Taugasálfræðilegt mat þegar grunur vaknar um versnandi hugræna færni, t.d. á sviði minnis eða athygli.
- Taugasálfræðilegt mat þegar grunur vaknar um byrjandi heilabilun s.s. Alzheimer sjúkdóm.
- Taugasálfræðilegt mat eftir höfuðáverka.
Magnús Jóhannsson hefur yfir fimmtán ára starfsreynslu á sviði taugasálfræði og taugavísinda. Hann starfaði til fjölda ára við greiningar á heilabilun s.s. Alzheimer sjúkdómi og öðrum heilaröskunum á geðdeild og minnismóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss. Einnig starfaði hann hjá rannsóknar- og þróunarfyrirtækinu Mentis Cura við rannsóknir og klínísk störf á sviði ýmissa heilaraskana, s.s. heilabilana og ADHD hjá börnum og fullorðnum. Magnús hefur auk þess kennt á sviði taugavísinda bæði við Læknadeild Háskóla Íslands og sálfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Ef óska á eftir taugasálfræðilegu mati þarf formleg tilvísun að berast Kvíðameðferðarstöðinni frá lækni eða sálfræðingi þar sem vandanum er lýst og tekið fram hvers konar mati er óskað eftir. Athugið að aðeins er hægt að óska eftir mati fyrir 18 ára og eldri. Að loknu mati er niðurstöðuskýrsla send aftur til tilvísandi aðila sem heldur utan um mál skjólstæðings.
Kostnaður við taugasálfræðilegt mat er mismunandi og fer eftir umfangi þess vandamáls sem skoðað er hverju sinni en kostnaður per klukkustund er 29.000 kr. Ef skoða á afmarkaða þætti líkt og grun um heilabilun má áætla að kostnaðurinn sé í kringum 116.000 kr. Sé hins vegar óskað eftir ítarlegra mati er kostnaður metinn hverju sinni og tilkynntur tilvísanda áður en skjólstæðingi er gefinn tími.
Auk taugasálfræðilegs mats má óska eftir ADHD-greiningu og fyrirlögn greindarprófs við greiningarsviðið og er þar ekki þörf á sérstakri tilvísun, en mikilvægt er að tekið sé fram þegar pantaður er tími, hvers konar þjónustu er óskað eftir.