Hvað er ælufælni?
Ælufælni er lítt þekkt kvíðaröskun sem hrjáir á bilinu 1-5% fólks, í flestum tilfellum konur, og samsvarar allt að 13.000 Íslendingum. Fæstum er vel við það að kasta upp en þeir sem glíma við ælufælni óttast uppköst að því marki að það litar líf þeirra verulega. Vandinn heyrir til afmarkaðrar fælni en er oftast meira hamlandi, auk þess sem margir í þessum hópi hafa fengið kvíðaköst þar sem einkenni frá meltingarvegi hafa verið áberandi.
Hvernig lýsir ælufælni sér?
Þeir sem haldnir eru ælufælni verða ofurmeðvitaðir um ónot frá maga og finna oft töluvert fyrir ógleði frá degi til dags. Fólk hefur af þessu stöðugar áhyggjur og reynir eftir fremsta megni að draga úr eða fyrirbyggja ógleði og möguleg uppköst, til dæmis með því að forðast almenningssamgöngur, ferðalög, almenningssalerni og stífar líkamsæfingar, veikt eða drukkið fólk, framandi mat og sum matvæli, svo sem kjúkling og skelfisk. Margir leita hughreystingar annarra, fylgjast vel með því hvort matvæli séu útrunnin og sótthreinsa hendur og yfirborðsfleti óhóflega.
Þess eru dæmi að konur fresti barneignum eða fara í fóstureyðingu af ótta við ógleðina sem meðgöngunni fylgir. Þá geta foreldrar með ælufælni átt erfitt með að annast börnin sín þegar þau verða veik. Ælufælni getur komið niður á heilsunni því sumir nærast illa, forðast töku lyfja þar sem ógleði er skráð aukaverkun og sniðganga læknisheimsóknir, aðgerðir og spítala.
Hvað er til ráða?
Það má ná tökum á ælufælni og hafa nokkrar rannsóknir verið gerðar á árangri hugrænnar atferlismeðferðar sem lofa góðu. Við Kvíðameðferðarstöðina (KMS) hefur afbrigði af hugrænni atferlismeðferð, svonefnd bergensk fjögurra daga meðferð, verið aðlöguð að ælufælni. Meðferðin hefur gefið góða raun við þráhyggju- og áráttu, sem svipar að mörgu leyti til ælufælni. Á næstunni mun verða boðið upp á meðferðina við KMS sem hluta af rannsóknum stöðvarinnar á ælufælni og meðhöndlun hennar. Mikilvægt er bæta þekkingu og meðhöndlun þessa hamlandi vanda. Um er að ræða meðferð sem stendur yfir í fjóra daga, eins og nafnið gefur til kynna. Ekki er komin dagsetning á fyrsta hópinn og verður það auglýst innan skamms.
Áhugasamir um þátttöku í meðferðinni geta sent tölvupóst á kms@kms.is og óskað eftir matsviðtali vegna ælufælni en í viðtalinu er metið hvort meðferðin geti verið góður kostur.