Greiningarviðtal er mikilvægur undanfari einstaklingsmeðferðar við Kvíðameðferðarstöðina, þar sem sú kortlagning sem þar fer fram er leiðarvísirinn að því sem gert verður til að takast á við vandann. Einstaklingsviðtalið kostar á bilinu 21.0oo-22.000 krónur og tekur um 50 mínútur. Viðtalið hjá sálfræðinema kostar aftur á móti helming þess sem kostar að fara í viðtal hjá sálfræðingum KMS, eða 10.000 krónur. Í mörgum tilvikum taka stéttarfélög þátt í að niðurgreiða sálfræðikostnað. Það er misjafnt hve marga meðferðartíma fólk þarf og ræðst það af eðli vandans. Hugræn atferlismeðferð er þó alla jafna skammtímameðferð þar sem unnið er markvisst að því að leysa núverandi vanda. Í þessari meðferð skoða sálfræðingur og sá sem til hans leitar í sameiningu hvað geti verið að viðhalda vandanum og hvernig megi kanna hvort þær hugmyndir sem fólk hefur séu raunhæfar. Kvíðaraskanir eiga það nefnilega sameiginlegt að tiltekin fyrirbæri eða aðstæður, til dæmis lyftur eða álit annarra, eru metin ógnvænlegri en þau raunverulega eru. Þegar þær hugmyndir breytast dregur verulega úr kvíðanum. Leitast er við að skoða þessar hugmyndir með ýmsum æfingum og tilraunum sem leitt geta í ljós hvort hugmyndirnar eigi við rök að styðjast, eða hvort um óþarfa áhyggjur sé að ræða. Þessar æfingar eru ýmist framkvæmdar í tímum eða milli tíma og er oftast farið yfir það í upphafi hvers tíma hvað tekist hafi verið á við frá því síðast. Undir lok hvers tíma eru svo ákveðnar nýjar æfingar fyrir næsta tíma. Tilraunirnar gera þessa meðferð skemmtilega og eru þær ávallt ákveðnar í sameiningu, með samþykki allra aðila. Þær eru aldrei hafðar þyngri en svo að fólk treysti sér til að framkvæma þær.
Við Kvíðameðferðarstöðina er oftast veitt hugræn atferlismeðferð (skammstafað HAM) , en þetta meðferðarform hefur farið ört vaxandi á undanförnum áratugum og er orðið eitt helsta meðferðarformið á Vesturlöndum. Er svo komið að mælt er með þessu meðferðarformi sem fyrsta inngripi við öllum kvíðaröskunum af breskum heilbrigðisyfirvöldum.