Sátt og samlyndi – samskiptanámskeið Sökum mikillar eftirspurnar er nú boðið upp á sérstakt námskeið í áhrifaríkum samskiptum á vegum KMS en ágreiningur manna á milli er einn helsti streituvaldurinn í lífi fólks. Lögð verður lögð áhersla á að fræða þátttakendur um eiginleika góðra samskipta, þjálfa færni í samskiptum og virkri hlustun ásamt því sem kenndar verða leiðir til að leysa ágreining, setja mörk og fá fólk í lið með sér. Fjallað verður um áhrif hugarfars og viðhorfa á samskipti og leiðir kenndar til að breyta óhjálplegu hugarfari á þessu sviði, jafnframt hvernig stilla megi sterkar tilfinningar sem koma í veg fyrir árangursrík samskipti. Farið verður í samskipti kynjanna og hvernig fást megi við erfiða einstaklinga. Námskeiðið hentar öllum þeim sem vilja bæta samskipti sín við aðra, hvort sem ætlunin er að bæta samskipti við maka, ættingja eða vini, samskipti á vinnustað eða stjórnunarhætti. Námskeiðið verður frá 20-22 í sex vikur, alls 12 klukkustundir. Dagsetningu námskeiðs má sjá í dálknum „Námskeið á döfinni“ á þessari heimasíðu. Stjórnendur námskeiðs eru Helena Jónsdóttir og Sóley D. Davíðsdóttir sálfræðingar Kvíðameðferðarstöðvarinnar. Námskeiðið er byggt á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Lesefni og verkefni fylgja hverjum tíma til að hámarka árangur af námskeiðinu ásamt því sem þátttakendur fá verkefni sem leysa þarf á milli kennslustunda.
Verð námskeiðs: 42.500 krónur. Undanfari námskeiðs er klukkutíma sálfræðiviðtal, sem kostar 9500, en þar er skoðað hvernig landið liggur hjá hverjum og einum, samskiptastíll greindur og kannað hvort námskeiðið komi að gagni. Hér að neðan má sjá innihaldslýsingu á tímum námskeiðs: 1. tími. Eiginleikar góðra og slæmra samskipta. 2. tími. Áhrif hugarfars og viðhorfa á samskipti. 3. tími. Virk hlustun, líkamstjáning, samskipti kynjanna. 4. tími. Áræðni í samskiptum, að setja mörk og ná sínu fram. 5. tími. Erfiðleikar í samskiptum, lausn ágreinings. 6. tími. Að ná tökum á erfiðum tilfinningum. |