Náðu tökum á þunglyndi

Home / Fréttir / Náðu tökum á þunglyndi

Hópmeðferð sem hefst 11. mars.

Þunglyndi er með algengari vandamálum sem fólk glímir við og einkennist af depurð eða áhugaleysi, þreytu, svartsýni, lífsleiða, breyttri matarlyst og of- eða vansvefni. Hugræn atferlismeðferð (HAM) er ein öflugasta meðferðin við þunglyndi og dregur mest allra meðferða úr líkum á að þunglyndi taki sig upp aftur. Er nú boðið upp á þessa meðferð í hóp við Kvíðameðferðarstöðina.

Í meðferðinni er farið yfir lykilatriði HAM; hvernig draga úr depurð og grufli, fást við erfiða líðan og niðurrifshugsanir, verða virkari og njóta lífsins í auknum mæli, bæta lífsgæði, svefn og tengsl við aðra.

Meðferðinni er stýrt af tveimur sálfræðingum og eru á bilinu 8-10 þátttakendur i hóp. Alls er um níu vikna meðferð að ræða þar sem tímarnir eru tvisvar í viku fyrstu þrjár vikurnar; eða á mánudögum og fimmtudögum frá 10-12, og vikulega síðustu sex vikurnar, á mánudögum frá 10-12. Mánuði eftir að meðferð lýkur er boðið upp á eftirfylgdartíma þar sem hópurinn kemur saman aftur og sálfræðingar ræða einslega við hvern þátttakanda.

Þátttaka í þessu alls 26 tíma námskeiði kostar 127.000 krónur en sækja þarf matsviðtal áður en námskeiðið hefst til að meta hvort námskeiðið komi að gagni. Matsviðtalið kostar 16.500 kr. og er ekki innifalið í námskeiðsverði. Í mörgum tilfellum taka stéttarfélög þátt í að niðurgreiða sálfræðimeðferð.

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á kms@kms.is og óska eftir þátttöku, en þá er fólk boðað í matsviðtal.

Hér að neðan má finna nánari lýsingu á tímum námskeiðs en dagskráin kann að riðlast þar sem tekið verður mið af þörfum þátttakenda í hverjum hóp fyrir sig.

Tími 1. Þátttakendur boðnir velkomnir, farið yfir markmið meðferðar, fræðsla veitt um þunglyndi og helstu orsakir, meðal annars fjallað um kerfin í heila sem ýmist eru vanvirk eða ofvirk (hvatakerfið, venslakerfið og varnarkerfið) og hvernig hafa megi áhrif á þau. Einnig er fjallað stuttlega um hugræna atferlismeðferð og árangur hennar. Rætt um hvernig hámarka megi árangur af námskeiði.  Þátttakendur fá fræðsluefni um þunglyndi með sér heim til að lesa.

Tími 2. Fjallað um vítahring þunglyndis, „þunglyndisblómið“. Hverjum og einum gefst færi á að skoða hvers konar viðbrögð geti viðhaldið þunglyndinu og teikna upp sinn vítahring. Þátttakendur halda skrá yfir virkni fram að næsta tíma. Rætt er stuttlega um eitt blað blómsins, svokallað skaðlega hegðun eða það sem fólk gerir sem skemmir fyrir því svo sem að snúa sólarhringnum við.

Tími 3. Farið yfir virkniskrár og hvað megi læra af þeim. Fræðsla um blaðið „forðun og hlédrægni“ í þunglyndisblóminu og hvernig megi snúa þeirri þróun við. Stutt fræðsla um svefn og hreyfingu. Þátttakendur kortleggja hvað þeir forðast eða fresta að gera og gera plan um áframhaldandi virkni fram að næsta tíma. Þátttakendur fá með sér kafla um virkni og þeir sem þurfa kafla um svefn.

Tími 4. Farið yfir virkniskrár. Fjallað um virkni út frá þörfum og gildum, þ.e. umræða um hvort fólk sé að fá þörfum sínum fullnægt, til dæmis fyrir félagskap, stuðning, tilbreytingu eða hvort fólk sé að sinna áhugamálum eða rækta hæfileika sína. Aðlaganir á virkniskrám gerðar út frá þessum atriðum. Umræða um aðstæður fólks, hvort eitthvað í aðstæðum fólks dragi úr því og hvort vandamál séu til staðar sem taka megi betur á.

Tími 5. Farið yfir virkniskrár. Fræðsla um áhrif hugarfars á þunglyndi og hvað einkenni þunglyndishugsanir. Þátttakendur læra að taka minna mark á þunglyndishugsunum, líta á þær sem skoðanir en ekki staðreyndir. Farið yfir hvernig skrá megi neikvæðar hugsanir og tæpt á helstu hugsanaskekkjum. Áframhaldandi virkniskrár ásamt hugsanaskrám sem fólk á að skila inn í næsta tíma.

Tími 6. Farið yfir virkni- og hugsanaskrár og hver og einn fær einslega viðgjöf við sinni hugsanaskrá. Farið yfir hvað einkenni uppbyggilegt hugarfar; hvernig vera megi styðjandi og hvetjandi við sig í hugsun, en jafnframt skynsamur.  Rætt um að með niðurrifshugsunum sem aðeins verkið að virkja varnarkerfi heilans með tilheyrandi vanlíðan. Þátttakendur gera fimm dálka hugsanaskrá heima og skila inn í næsta tíma.

Tími 7. Farið yfir fimm dálka hugsanaskrár hjá hverjum og einum og skoðað hvort fólk nær að svara hugsunum hlýlega. Fræðsla um frestunaráráttu og hvað sé til ráða. Þátttakendur fá lesefni um frestunaráráttu með sér heim og halda áfram með fimm dálka hugsanaskrár. Áfram áhersla á aukna virkni og að gera öfugt við það sem þunglyndið kallar á.

Tími 8. Farið yfir fimm dálka hugsanaskrár hjá þátttakendum. Fræðsla um grufl og þátttakendum kennt að fylgjast með hjá sér grufl og koma með slíka skrá í næsta tíma. Þeir lesa jafnframt kafla um grufl heima.

Tími 9. Farið yfir gruflskrár og hvað megi læra af þeim. Hver og einn gerir plan um hvernig hann ætli að bregðast við grufli hjá sér fram að næsta tíma. Núvitundaræfingar gerðar þar sem þátttakendur taka eftir og láta neikvæðar hugsanir frá sér fara, án þess að festast í þeim. Þátttakendur gera fimm mínútna núvitundaræfingu þar sem þeir taka eftir og sleppa neikvæðum hugsunum.

Tími 10. Farið yfir hvernig þátttakendum gekk að bregðast við grufli. Fræðsla um lífsreglur, t.d. að gera þurfi allt 100%, þóknast öllum o.fl. og hvernig brjóta megi þær upp. Þátttakendur kortleggja lífsreglur sínar og æfa sig að brjóta þær heima.

Tími 11. Farið yfir með þátttakendum hvernig gekk að brjóta upp lífsreglur. Fræðsla um farsæl samskipti og tengsl, meðal annars áræðni.

Tími 12. Farið yfir hvernig þátttakendur geti viðhaldið eða unnið að auknum árangri og hvernig bregðast megi við bakslögum. Hver og einn setur sér markmið fram að eftirfylgdartíma.

Tími 13 (mánuði síðar). Farið yfir hvernig þátttakendum hafi gengið undanfarinn mánuð og mögulegir erfiðleikar ræddir.