Úr vörn í sókn -lærðu að njóta þín í íþróttum og sýna hvað í þér býr

Forsíða / Hópmeðferð / Úr vörn í sókn -lærðu að njóta þín í íþróttum og sýna hvað í þér býr

Á námskeiðinu verða kenndar leiðir sálfræðinnar til að efla sjálfstraust, draga úr kvíða og bæta frammistöðu í íþróttum og er ætlað ungu íþróttafólki á aldrinum 15-18 ára sem er að æfa íþróttir, hvort sem er einstaklings- eða hópíþróttir.

Námskeiðið hentar vel ungu fólki sem á erfitt með að njóta sín á æfingum eða á mótum eða ná ekki að sýna hvers þau eru megnug þegar þau eru að keppa eða þegar aðrir eru að fylgjast með þeim vegna streitu, lítils sjálfstrausts eða frammistöðukvíða. Sömuleiðis þeim sem hræðast að gera mistök eða eiga erfitt með að takast á við gangrýni eða mótlæti í leikjum eða á æfingum.

Kennt verður í 6 skipti, 90 mín í senn en sálfræðingarnir og íþróttafólkið Viktor Örn Margeirsson, Karl Elí Karlsson (knattspyrna), Heiða Ingólfsdóttir, Íris Sverrisdóttir og Halldór Arnarsson verða leiðbeinendur á þessum námskeiðum.

Á þessu fyrsta námskeið sem hefst mánudaginn 15. maí verður í höndum Viktors Arnar og Karls Elís en kennt verður 3x í viku í 2 vikur, nánar tiltekið á mánudögum kl. 11.30-13.00, miðvikudögum kl 15.30-17.00 og föstudögum kl 11.30-13.00. Áður en námskeiðið hefst hitta sálfræðingarnir þátttakendur einslega í komuviðtali þar sem vandinn er kortlagður og gengið úr skugga um að námskeiðið eigi við. Verð fyrir námskeiðið er 69.000.- krónur en komuviðtalið er ekki innifalið í gjaldinu.

Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á námskeiðið og tilgreindu hvaða námskeiði þú óskar eftir. Einnig er hægt að skrá sig með því að hafa samband í síma 534 0110 eða senda tölvupóst á kms@kms.is en  skráningu fyrir næsta námskeið lýkur 7. maí n.k.

Stutt samantekt um íþróttaferli sálfræðinganna sem koma að námskeiðsinu:

Heiða Ingólfsdóttir sálfræðingur æfði og spilaði sem markmörður í efstu deild kvenna í handbolta í um 15 ár. Hún spilaði lengst af með Stjörnunni og ÍBV. Hún byrjaði að spila fyrir unglingalandslið Íslands 13 ára og á einnig að baki nokkra A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún hefur unnið Íslands-, deildar- og bikarmeistaratitla með liðum sínum. Heiða kannast einnig við það af eigin raun að takast á við erfið meiðsli, höfuðáverka og erfiðleika í tengslum við það að finna jafnvægi á milli metnaðar og pressu um að standa sig, samhliða því að njóta sín í íþróttinni. Heiða hefur nú lagt skóna á hilluna en stundar yoga, fjallgöngur og almenna líkamsrækt.

Viktor Örn Margeirsson sálfræðingur hefur á sínum knattspyrnuferli lengst af spilað með Breiðabliki og verið í toppbaráttunni í efstu deild á Íslandi en lið Breiðabliks varð Íslandsmeistari árið 2022.  Sama ár spilaði Viktor sinn fyrsta A-landsleik fyrir hönd Íslands. Á ferlinum hefur Viktor þurft að þola töluvert mótlæti, til dæmis: Að falla úr deild, dottið úr liðinu, mörg töp og fleira. Hann segist hafa lært margt af sigrunum en enn meira af mótlætinu og getur miðlað mörgu úr reynslubankanum sínum.

Íris Sverrisdóttir sálfræðingur æfði knattspyrnu með Selfossi upp alla yngri flokkana og með meistaraflokki í efstu og næst efstu deild á árunum 2009 til 2018. Árin 2020 til 2022 spilaði hún með Hamri í 2. deild. Íris er búin að leggja knattspyrnuskóna á hilluna en æfir þess  í stað langhlaup og hljóp meðal annars Laugaveginn Ultra Maraþon árið 2021.

Karl Elí Karlsson æfði knattspyrnu fótbolta í 15 ár en hætti sökum meiðsla. Hann leggur nú stund við golf, líkamsrækt og tölvuleiki en hann hefur tekið þátt í rafíþróttakeppnum.

Halldór Arnarson á að baki áralangan feril í knattspyrnu og starfar nú sem þjálfari samhliða starfi sínu sem sálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.