Flestir hafa áhyggjur af heilsu sinni öðru hvoru. Hóflegar áhyggjur geta orðið til þess að við hugsum vel um líkama okkar og leitum læknisaðstoðar þegar við á. Það er einnig ofureðlilegt að hafa áhyggjur af heilsunni þegar við erum alvarlega veik. Þegar áhyggjurnar eru hins vegar orðnar mun meiri en heilsufar gefur tilefni til og farnar að koma niður á líðan okkar og lífsgæðum, er litið svo á að heilsukvíði sé á ferðinni. Oftast hefur fólk áhyggjur af eigin heilsu en áhyggjurnar geta einnig snúið að heilsu einhvers annars, til dæmis maka eða barns. Fólk getur óttast að fá hvaða sjúkdóm sem er, líkamlegan sem andlegan. Það getur einnig verið breytilegt hvaða sjúkdóm fólk óttast hverju sinni. Manneskja getur til dæmis gengið í gegnum tímabil þar sem hún óttast að vera komin með alnæmi og annað tímabil þar sem hún telur sig komna með heilaæxli. Margir hafa endurtekið leitað til lækna til að fá greiningu á þeim einkennum sem fólk finnur fyrir og hefur endurtekið verið tjáð að um óþarfa áhyggjur sé að ræða og eitthvað sem lagast af sjálfu sér. Skiljanlega leysir það ekki vandann því vissulega er eitthvað að sem ráða þarf bót á. Óþægindin sem fólk finnur fyrir eru raunveruleg, það er aðeins spurning hvað þau merkja. Í raun stafar vandinn af því að meinlaus líkamleg einkenni, oft kvíðaeinkenni, til dæmis spenna og verkir, doði, svimi, hjartsláttarbreytingar, andnauð, meltingartruflanir og ógleði, eru túlkuð á þá leið að um alvarleg veikindi sé að ræða. Tilfinningaleg einkenni heilsukvíða geta verið kvíði og ótti, áhyggjur, pirringur og depurð. Heilsukvíði hrjáir um 5% fólks og er álíka algengur meðal karla og kvenna. Hann getur hafist á hvaða aldursskeiði sem er, algengast er þó að vandinn hefjist snemma á fullorðinsárum. Oft hefst hann á álagstímum í lífi fólks, til dæmis í kjölfar veikinda eða andláts nákomins ættingja.

Áður en sálfræðimeðferð er hafin við heilsukvíða er ráðlegt að fara læknisskoðun því vissulega útilokar heilsukvíði ekki að líkamleg veikindi kunni að vera til staðar.  Hafir þú hins vegar þegar gert það er um að gera að reyna sálfræðimeðferð þótt þú kunnir enn að hafa áhyggjur af að vera líkamlega veik(ur). Það getur munað miklu að ná tökum á heilsufarsáhyggjunum hvað sem líkamlegri heilsu líður.

Glímir þú við heilsukvíða?

Til að teljast vera með heilsukvíða þarf að ná viðmiðum A til D hér að neðan en auk þess þarf vandinn að hafa verið til staðar í að minnsta kosti hálft ár þótt áhyggjurnar geti hafa beinst að mismunandi sjúkdómum á því tímabili.

A. Hefur þú áhyggjur af því að vera haldinn, eða veikjast, af alvarlegum sjúkdómi?

B. Eru líkamlegu einkennin sem þú finnur fyrir væg (t.d. ekki mjög sárir verkir) ef þau eru til staðar? Eru áhyggjur þínar meiri en eðlilegt er af þessum einkennum?

C. Ert þú með mikinn kvíða tengdan heilsunni og færð þú auðveldlega áhyggjur af heilsufari þínu?

D. Ástundar þú óhóflega heilsutengda hegðun (t.d. forðast alfarið matvörur sem geta verið krabbameinsvaldandi) eða forðast eitt og annað sem kemur sér illa fyrir þig (t.d. læknisheimsóknir, áreynslu).

Hugræn atferlismeðferð við heilsukvíða

Samkvæmt hugrænni kenningu hefur reynsla heilsukvíðinna af eigin veikindum eða veikindum annarra leitt til þess að myndast hafa afar neikvæðar hugmyndir um veikindi, sjúkdómseinkenni, vinnubrögð lækna o.s.frv. Fólk fer síðan að túlka meinlaus líkamleg einkenni, oft kvíðaeinkenni í samræmi við þessar hugmyndir. Líkamleg óþægindi sem það finnur fyrir eru oft túlkuð á versta veg, hausverkur gæti t.d. verið talinn til marks um heilaæxli. Yfirleitt er horft framhjá meinlausum skýringum á óþægindunum, eða þeim ekki trúað. Þegar óþægindi eru túlkuð á versta veg magnast kvíði upp sem einmitt lýsir sér í líkamlegum einkennum eins og doða, spennuverkjum og skjálfta. Hætt er við að þau einkenni séu síðan túlkuð til marks um alvarleg veikindi. Einnig gætir tilhneigingar til að túlka ummæli lækna á versta veg, ef læknir t.d. sendir viðkomandi í rannsókn gæti viðkomandi hugsað sem svo að „læknirinn væri sannfærður um að eitthvað alvarlegt væri að”. Fólk fer jafnframt að beina athyglinni að líkamlegum einkennum sem gerir það að verkum að meira er fundið fyrir þeim. Að lokum fer fólk að grípa til ýmissa ráðstafana eins og að leita endurtekið til lækna sem skilar litlu þar sem heilsufarsáhyggjurnar taka sig fljótlega upp að nýju.

Með hugrænni atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að rjúfa vítahringi sem viðhalda vandanum og skoða hvort þau óþægindi sem fólk finnur fyrir hagi sér eins og kvíðavandamál. Ef svo er ætti meðferðin að skila sér í bættri líðan og lífsgæðum.

Lesefni á íslensku um heilsukvíða

Sóley Dröfn Davíðsdóttir (2014). Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum (kafli um heilsukvíða). Reykjavík: Eddu útgáfa.

Grein í Læknablaðinu frá 2010

Lesefni á ensku um heilsukvíða

Asmundsson, G.J. og Taylor, S. (2005). It´s not all in your head: How worrying about your health could be making you sick -and what you can do about it. New York: The Guilford Press.