HopherbergiFyrirtæki hafa undanfarin ár í auknum mæli nýtt sér aðferðir sálfræðinnar til að stuðla að aukinni vellíðan starfsmanna. Fræðsluerindum og styttri námskeiðum Kvíðameðferðarstöðvarinnar er ætlað að veita starfsmönnum fyrirtækja og stofnana þekkingu á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) til að ná stjórn á og bæta líðan á vinnustað og í persónulegu lífi sínu.

Kvíðameðferðarstöðin hefur frá stofnun árið 2007 skapað sér sess sem virt meðferðarstöð þar sem veitt er greining og meðferð kvíðaraskana og tengdra vandamála. Boðið er upp á hugræna atferlismeðferð (HAM) en aðferðir hennar hafa reynst afar vel við meðhöndlun kvíða.

Auk hefðbundinnar einstaklingsmeðferðar og lengri hópnámskeiða er við Kvíðameðferðarstöðina boðið upp á úrval fræðsluerinda og styttri námskeiða sem henta vel fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Fræðsluerindi og námskeið geta farið fram hvort sem er í húsakynnum þess sem óskar eftir þjónustunni eða í húsakynnum Kvíðameðferðarstöðvarinnar en fyrirlestrarsalur okkar rúmar allt að 25 manns.

Gert er ráð fyrir að fræðsluerindi og námskeið séu 1-6 klukkustundir, eftir óskum og þörfum, en einnig er mögulegt að sníða erindi sérstaklega að þörfum verkkaupa hverju sinni. Eftirfarandi fræðsluerindi og námskeið eru í boði en í öllum tilvikum má setja efni erinda fram í formi stuttra fræðsluerinda (1-4 klst á einum degi) og í formi námskeiða (4-6 klst á 1-3 dögum).

Bætt líðan með hugrænni atferlismeðferð
Áhyggjur og kvíði
Svefnleysi og hugræn atferlismeðferð
Sjálfstraust, áræðni og samskipti

Nánari upplýsingar veitir Sóley D. Davíðsdóttir, forstjóri Kvíðameðferðarstöðvarinnar í síma 534 0110 eða með tölvupósti soley@kms.is.