Félagsfælni lýsir sér í þrálátum kvíða við félagslegar aðstæður þar sem fólk óttast að koma illa fyrir og að aðrir myndi sér neikvæða skoðun á því. Fólk forðast þessar aðstæður eða þraukar þrátt fyrir mikinn kvíða. Dæmi um slíkar aðstæður getur verið að þurfa að tjá sig fyrir framan aðra, mæta í veislur og kynnast nýju fólki, tala við yfirmenn eða halda erindi. Það geta verið flestar félagslegar aðstæður sem vekja kvíða eða aðeins mjög afmarkaðar aðstæður eins og að spila á tónleikum. Vandinn þarf að há fólki verulega í daglegu lífi til að um félagsfælni sé að ræða. Félagsfælni er algengasta kvíðaröskunin og hrjáir um 12% fólks. Helstu líkamlegu einkenni félagsfælni, sem fólk óttast oft að verði sýnileg öðrum, eru roði, sviti, skjálfti eða spennt raddbönd. Hugurinn getur tæmst og fólk átt erfitt með að einbeita sér. Tilfinningaleg einkenni félagsfælni eru m.a. kvíði, óöryggi, skömm, pirringur og höfnunartilfinning. Fólk verður óþægilega sjálfmeðvitað og finnur til vanmáttar síns. Félagsfælni getur leitt til þunglyndis og misnotkunar á vímuefnum.

Ert þú með félagsfælni?

Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú sért haldinn félagsfælni, geta eftirfarandi spurningar komið þér að gagni. Svarir þú þeim játandi getur verið að þú sért haldinn félagsfælni, en úr því fæst ekki skorið nema með mati fagmanns.

1. Óttast þú einhverjar félagslegar aðstæður þar sem þér finnst þú þurfa að standa þig? Dæmi um slíkar aðstæður getur verið að fara í veislu, tjá þig við aðra, halda uppi samræðum, drekka eða borða fyrir framan aðra, halda ræðu, spila á tónleikum, fara í atvinnuviðtal, tala við yfirmann o.s.frv. Það er nóg að þú óttist einhverjar einar aðstæður til að svara spurningunni játandi.

Já □ Nei □

Félagsfælnir óttast iðulega einhverja(r) af þessum aðstæðum.

2. Óttast þú, þegar þú ert í þessum aðstæðum, að þú munir koma illa fyrir eða vekja neikvæð viðbrögð hjá öðrum? T.d. að þú munir roðna, stama, svitna, segja einhverja vitleysu, missa málið eða verða vandræðalegur?

Já □ Nei □

A. Hversu kvíðinn ert þú í þessum aðstæðum?

0       1        2       3       4       5       6       7       8       9       10

Ekkert kvíðinn                                                          Mjög kvíðinn

B. Hversu oft verður þú kvíðinn í þessum aðstæðum?

0       1        2       3       4       5       6       7       8       9       10

Aldrei                                                                                         Alltaf

Félagsfælnir verða iðulega kvíðnir í þessum aðstæðum og finna þá oftast fyrir miklum kvíða.

4. Telur þú að ótti þinn við þessar aðstæður sé meiri en gengur og gerist?

Já □  Nei □

Félagsfælnir upplifa oftast nær að kvíðinn sé meiri en eðlilegt er.

5. Ef þessar aðstæður koma upp, reynir þú að koma þér hjá þeim, t.d. með því að látast vera veikur eða fresta því að gera það sem um ræðir?

Já □ Nei □

Eða ferð þú og líður hræðilega meðan á aðstæðunum stendur?

Já □ Nei □

Félagsfælnir myndu svara annarri hvorri spurningunni, eða báðum, játandi, þ.e.a.s. þeir myndu reyna að koma sér hjá þessum aðstæðum eða pína sig til að fara og líða illa á meðan.

Að lokum eru nokkur atriði í viðbót sem eru skilyrði þess að fólk sé metið félagsfælið,  merktu við þau atriði sem eiga við um þig:

Vandinn þarf að há þér verulega í lífinu □

Vandinn þarf að valda þér umtalsverðri vanlíðan □

Vandinn þarf að hafa verið til staðar í a.m.k. sex mánuði □

Hvernig er félagsfælni meðhöndluð við Kvíðameðferðarstöðina?

Við Kvíðameðferðarstöðina er félagsfælni meðhöndluð með hugrænni atferlismeðferð. Meðferðin er oft, en þó ekki alltaf, veitt í hóp þar sem það eitt að mæta í hópinn vinnur gegn félagsfælninni, þátttakendur geta lært hver af öðrum og æft félagslega færni sín á milli. Það er, eðlilega, kvíðvænlegt að mæta í hóp í fyrstu skiptin en ef fólk þraukar í nokkur skipti fer kvíðinn smám saman minnkandi. Hópmeðferðin, sem stýrt er af tveimur sálfræðingum, stendur yfirleitt yfir í 11 vikur og er veitt vikulega í tvo tíma í senn. Það eru 8 til 10 þátttakendur í hverjum hópi. Í fyrstu tímunum veita sálfræðingarnir fræðslu um viðbrögð sem viðhalda félagsfælni. Kenndar eru ýmsar leiðir til að minnka kvíða í samskiptum og draga úr frammistöðukvíða.

Ef þú vilt kynna þér árangurinn af þessu meðferðarúrræði getur þú fundið hann hér en í mjög stuttu máli má segja að undir lok námskeiðs mælist 80% þátttakenda umtalsvert betri eða innan eðlilegra marka hvað varðar félagskvíða. Þá benda mælingar til að félagskvíðinn haldi áfram að lækka eftir að námskeiði lýkur.

Lesefni á íslensku um félagsfælni:

Sóley D. Davíðsdóttir (2010). Öryggi í samskiptum: Meðferðarhandbók við feimni og félagsfælni. Bókin er seld hér

Sóley D. Davíðsdóttir (2014). Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum (kaflinn um félagsfælni). Reykjavík: Edda útgáfa.

Sigurður Viðar, Sigurbjörg J. Ludvigsdóttir og Sóley D. Davíðsdóttir (2011). Hugræn atferlismeðferð í hóp við félagsfælni: Árangursmæling við Kvíðameðferðarstöðina. Sálfræðiritið, bls. 85-100. Hér má sjá greinina.

Sóley D. Davíðsdóttir, Guðrún Íris Þórsdóttir og Brynjar Halldórsson (2005). Mat á árangri hugrænnar atferlismeðferðar í hóp við félagsfælni. Sálfræðiritið, 10-11, bls. 9-21.

Lesefni á ensku um feimni og félagsfælni:

Antony, M.M. (2004). 10 simple solutions to shyness: How to overcome shyness, social anxiety, and fear of public speaking. Oakland, CA: New Harbinger Publications.

Antony, M.M., & Swinson, R.P. (2000). The shyness and social anxiety workbook: Proven, step-by-step techniques for overcoming your fear. Oakland, CA: New Harbinger Publications.

Hér má sjá leiðbeiningar um greiningu og meðferð frá NICE, stofnun á vegum breska heilbrigðisráðuneytisins

Heimasíður um feimni og félagsfælni:

Shyness Home Page

Social Anxiety Network

Lesefni fyrir foreldra barna með félagsfælni eða feimni:

Creswell,C. og Willets, L. (2007), Overcoming Your Child´s Shyness and Social Anxierty. London: Constable and Robinson.