Mörg orð í íslenskri tungu lýsa einhvers konar kvíðaástandi eins og óöryggi, beygur, stress, ónot, ótti, felmtur og ofsahræðsla. Þetta eru allt missterk form af sama viðbragðinu sem virkjast mismikið.  Sumir segjast aldrei vera kvíðnir en líklega finna þeir stundum fyrir líkamlegum einkennum sem talist geta til kvíða eins og magaverkjum og meltingartruflunum. Kvíði er talsvert líkamlegur í eðli sínu og því ekki skrítið að fólk geti álitið sig líkamlega veikt þegar kvíði verður mikill. Hér að neðan má sjá helstu kvíðaeinkenni.

Líkamleg einkenni kvíða

VöðvaspennaÖr hjartslátturSlök einbeiting
MáttleysiÞungur hjartslátturÓskýr hugsun
BrjóstverkurGrunn og ör öndunSkjálfti
AndþyngsliKökkur í hálsiDoði
GarnagaulKyngingarerfiðleikarSkjálfandi rödd
Fiðrildi í magaKöfnunartilfinningSpennt raddbönd
VerkirTíð þvaglátRoði eða fölvi
NiðurgangurHita- eða kuldaköstGrátur eða hlátur
ÓgleðiSvimi, svitiSjóntruflanir
MunnþurrkurMinnkuð kynhvötÞrengt sjónsvið

Það er misjafnt hvaða einkennum fólk finnur mest fyrir en ýmis tilfinningaleg einkenni geta einnig fylgt kvíðanum eins og pirringur, eirðarleysi, þreyta og svefntruflanir, auk almennrar kvíðatilfinningar. Kvíðatilfinning getur komið í köstum, svokölluðum kvíðaköstum, en jafnframt varað lengur í vægara formi.

Hvað er kvíði?

Kvíði er lífeðlislegt viðbragð sem virkjast þegar manneskja stendur frammi fyrir mögulegri ógn við velferð hennar eða afkomu. Það er nóg að manneskja dragi þá ályktun að henni sé ógnað með einhverjum hætti til að viðbragðið kvikni. Ógnin þarf því ekki að vera raunveruleg og viðbragðið er alltaf það sama. Þetta viðbragð hefur stuðlað að afkomu mannsins í áranna rás en án þess er hætt við að fólk hefði í auknum mæli dottið fram af björgum, lokast inni eða orðið villidýrum að bráð. Kvíðakerfi mannsins er það öflugt að það ræsist nær ósjálfrátt í vissum aðstæðum: Andspænis villidýrum, skordýrum, slöngum, reiðum andlitum, lokuðum rýmum eða háum hæðum. Mönnum er óttinn við þessar aðstæður í blóð borinn og þarf litla reynslu af ofangreindu til að fælni myndist. Það er hins vegar mun erfiðara að þróa með sér fælni fyrir ljósastaurum eða pottablómum, þótt dæmi séu til um fælni að því tagi! Okkur er kvíðinn eðlislægur og bætir hann beinlínis frammistöðu okkar á ýmsum sviðum, til dæmis í íþróttum og á prófum. Kvíðaviðbragðið fær okkur einnig til að bregðast hratt og vel við þegar við erum í hættu stödd, til dæmis þegar bíll nálgast okkur á ógnarhraða. Kvíðinn segir okkur stundum hvað við eigum að gera, til dæmis keyra varlega í hálku. Hann getur aftrað okkur frá því að gera hluti sem við gætum síðar séð eftir og er nátengdur samvisku. Það er því hvorki eðlilegt né æskilegt ástand að vera allsendis ókvíðinn. Hins vegar er það skiljanlegt að þeir sem eru illa haldnir af kvíða óski þess  að verða kvíðalausir!

Hvað er kvíðaröskun?

Litið er svo á að fólk sé haldið kvíðaröskun þegar kvíðinn er farinn að ræsast endurtekið án þess að hætta sé á ferðum, vara lengur en eðlilegt er, valda hugarangri og hefta líf fólks. Það má líkja þessu við ofurnæma þjófavörn í bíl sem fer í gang við minnsta áreiti, til dæmis við örlitla vindhviðu eða þegar einhver strýkst utan í bílinn. Fólki hættir til þess í daglegu tali að gera lítið úr kvíða, segja eitthvað eins og „þetta er bara kvíði, hvað, heldur þú að þú getir ekki gert þetta?“ Kvíði getur hins vegar orðið ótrúlega þrálátur og langvinnur ef ekki er unnið sérstaklega að uppræta hann. Hann getur skert lífsgæði fólks verulega og takmarkað líf fólks, gert það að verkum að það getur ekki gert nema hluta af því sem það langar til. Sumir láta sig kannski hafa það að gera hlutina þrátt fyrir kvíða en ná þá oft ekki að njóta þeirra. Kvíði getur haft áhrif á öll svið lífsins, menntun og framgöngu í starfi, tengsl við aðra og hvernig frístundum er varið. Hann getur haft áhrif á nánast hverja einustu ákvarðanatöku yfir daginn, t.d. hvort manneskja gengur upp á 8. hæð eða tekur lyftuna, hvort farið er út með vinum að kvöldi til eða setið heima, hvort haldið er áfram eða hætt í skóla eða farið í ræktina. Þá getur langvarandi kvíði einnig leitt til þunglyndis og misnotkunar vímuefna. Það er því til mikils að vinna náist að halda kvíðaeinkennunum í skefjum. Tæplega þriðji hver maður fær kvíðaröskun einhvern tímann á ævinni og margir þjást af fleiri en einni kvíðaröskun.

Fólk getur erft tilhneigingu til kvíða en við það bætist reynsla fólks í lífinu. Þeir sem þróa með sér kvíðaröskun  hafa einhvers staðar lært að hræðast þær aðstæður eða fyrirbæri sem um ræðir. Sameiginlegt öllum kvíðaröskunum er að þessar aðstæður eru metnar hættulegri en þær eru í raun og veru. Fólk er í raun kvíðnara í vissum aðstæðum en eðlilegt er. Kvíðinn er flokkaður í tegundir eftir því hvað það er sem fólk kvíðir, hvers konar aðstæður vekja með því kvíða. Það er hins vegar ekki þar með sagt að fólk sé alltaf meðvitað um það hvað veki hjá því kvíða. Hér að neðan getur þú séð lista yfir helstu kvíðaraskanir, sem þó flokkast ekki allar undir kvíðaraskanir í nýjustu útgáfu DSM (flokkunarkerfi bandaríska geðlæknafélagsins). Þar sem þessi vandkvæði einkennast öll af miklum kvíða og eru meðhöndluð sem kvíðavandamál eru þau hér talin til kvíðaraskana. Í seinni dálkinum má sjá hvað það er sem fólk óttast í hverri kvíðaröskun fyrir sig. Nánar er fjallað um hverja og eina þessara kvíðaraskana á þessari heimasíðu.

FélagsfælniÓtti við að verða sér til skammar eða dæmdur í félagslegum aðstæðum
Afmörkuð fælniÓtti við að skaðast í afmörkuðum aðstæðum (t.d. af dýrum, veðurskilyrðum, í lyftum, flugi)
ÁfallastreituröskunÓtti við minninguna um alvarlegt áfall sem átti sér stað
HeilsukvíðiÓtti við að vera haldinn alvarlegum sjúkdómi sem ekki hefur tekist að greina
Almenn kvíðaröskunÓtti við óvissu sem haft geti eitthvað slæmt og óviðráðanlegt í för með sér
Þráhyggja og áráttaÓtti við eigin hvatir og hugsanir sem talin eru endurspegla innræti og geti leitt til slæmra atburða

Tilgangur kvíðaeinkenna

Kvíðaeinkennin geta virst ógnandi en eru í raun meinlaus. Það sem er merkilegast er að hvert og eitt þessara einkenna hefur tilgang og er ætlað að stuðla að afkomu okkar. Hér að neðan má finna útskýringar á því hvað gerist í líkama okkar þegar við erum kvíðin og hvaða aukaverkunum við finnum fyrir í kjölfarið.

EinkenniTilgangurAukaverkun
Ör öndunAuka súrefnisupptökuAndþyngsli, svimi, verkur fyrir brjósti
Ör hjartslátturDæla súrefnisríku blóði til stórra vöðvaÓþægilega meðvitund um hjartsláttinn
Breytt blóðstreymiBlóði beint frá húð, fingrum og támDoði, seyðingur og kuldi þar sem blóðflæði er minna
Vöðvar spenntirVera reiðubúin til atlöguVerkir, vöðvabólga, skjálfti
SvitiLíkaminn kældurSvitamyndun
Hægt á meltinguOrkan spöruð fyrir árás eða flóttaMunnþurrkur, meltingartruflanir, ógleði
Athygli að hættuVera viðbúin og fljót að bregðast viðÁ nálum, viðbrigðin, erfitt að hugsa um annað en hættuna
Skynfæri skerpastVera fljótari að greina hættunaLjósfælni, sjóntruflanir, finnum meira fyrir klið