Ælufælni er lítt rannsakaður og hamlandi vandi sem hrjáir líklega 2-3% karla og 6-7% kvenna. Oft byrjar vandinn í kjölfar erfiðrar upplifunar í æsku af veikindum sjálfs eða annarra. Fleiri í þessum hópi hafa meiri áhyggjur af því að æla sjálfir og flestir hafa áhyggjur af því að æla á almannafæri. Stærstur hluti þessa hóps greinir frá því að hafa fengið kvíðaköst og hafa þá einkenni frá meltingarfærum verið hluti af kvíðaköstunum. Menn verða hér sérlega vakandi fyrir einkennum frá meltingarfærum svo sem fiðrildum í maga og ógleði. Algeng viðbrögð fólks eru meðal annars að forðast smit og veikindi, forðast tilteknar matvörur eins og kjúkling og skelfisk, fylgjast sérstaklega vel með hvenær matvörur renna út og sumir koma sér jafnvel hjá því að eignast börn. Algengast er að vandinn sé meðhöndlaður með hugrænni atferlismeðferð þar sem fólk er látið takast á við vandann í mjög litlum þrepum.